
Borgarráð samþykkti í dag samstarfssamning við Sögufélag um aðild Reykjavíkurborgar að útgáfu á sögu Íslands. Samningurinn er í tilraunaskyni til eins árs og miðað er við útgáfu tveggja bóka á árinu 2025 sem báðar tengjast sögu Reykjavíkur.
Saga Reykjavíkur var gefin út í sex bindum sem út komu á árunum 1991-2002, svo árið 2036, þegar Reykjavík mun fagna 250 ára afmæli sínu, verða fyrstu bækurnar í ritverkinu orðnar nærri hálfrar aldar gamlar. Á þeim tíma hefur sögunni fleygt fram, ytri mörk borgarinnar breyst og ný sjónarmið og nálganir komið fram í sagnfræði.
Ritröð að danskri fyrirmynd
Í janúar 2023 samþykkti borgarstjórn að vísa til borgarráðs tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna um að láta útbúta drög að kostnaðar- og verkáætlun fyrir ritun á nýrri sögu Reykjavíkur með það að markmiði að útgáfu gæti lokið árið 2036, á 250 ára kaupstaðarafmælinu. Á fundi borgarráðs í febrúar 2024 var síðan samþykkt að Reykjavíkurborg færi í viðræður við Sögufélag um aðkomu Reykjavíkurborgar að útgáfu Íslandssögu með mögulega samlegð og hagkvæmni í huga. Sögufélag hyggur á útgáfu á formi smárita/bóka, þar sem einstakir þættir sögunnar verða teknir fyrir. Gert er ráð fyrir að útgáfan telji 40-60 smárit á komandi áratug og byggt á danskri fyrirmynd sem gefið hefur góða raun. Kannaður var möguleiki á því að flétta nýja útgáfu á sögu Reykjavíkur inn í þá útgáfu og í dag samþykkti borgarráð samstarfssamning til eins árs. Heildarfjárhæð fyrir hvort rit um sögu Reykjavíkurborgar er 5,5 milljónir króna og er kostnaður Reykjavíkurborgar með fyrirvara um að hann rúmist innan fjárhagsáætlunar ársins.
Samstarfs leitað víða
Markhópur ritraðarinnar í heild sinni er fróðleiksfús almenningur og nemendur og er bókunum ætlað að vera aðgengilegar fyrir öll. Lögð verður áhersla á hnitmiðaða og þægilega frásögn sem hvílir á traustum rannsóknum. Hver bók verður um 100 blaðsíður og unnið eftir skýrri ritstjórnarstefnu þar sem gengið er út frá tilteknum atburði og ártali í hverri bók. Ein af grunnhugmyndum verkefnisins er að efnið sé ekki eingöngu mikilvægt í sjálfu sér heldur skipti einnig máli í samtíð og á komandi árum. Leitað verður samstarfs við söfn, skóla og stofnanir um land allt varðandi heimildasöfnun, sýningar og aðra miðlun efnis bókanna og fær verkefnið mikinn meðbyr. Í febrúar gekk Sögufélag til að mynda frá samningi við Miðstöð menntunar og skólaþróunar um samstarf varðandi útgáfuna og miðlun sem er afar mikils virði fyrir verkefnið í heild.