Samið um leigu nýs leikskóla við Rafstöðvarveg

Tölvumynd af væntalegum leikskóla við Rafstöðvarveg.

Reykjavíkurborg hefur undirritað leigusamning við Rafklett ehf. um leigu á húsnæði við Rafstöðvarveg 7 og 9 þar sem reistur verður nýr leikskóli. Um er að ræða mikilvægt skref í að fjölga leikskólaplássum í borginni, í samræmi við samþykktar tillögur borgarstjóra og spretthóps sem starfar að úrbótum í leikskólamálum.

Leikskólinn mun rúma um 100 börn

Leikskólinn verður 6 til 7 deilda og mun rúma um 100 börn á um 1.600 fermetrum. Húsnæðið verður afhent fullbúið 12 mánuðum eftir undirritun samningsins og verður leigutíminn til 1. júlí 2041.

Leigusali mun sjá um að framkvæmdir samkvæmt samþykktum teikningum og þarfalýsingu. Einnig verður gerð úttekt á ástandi húsnæðisins áður en afhending fer fram, þar sem tryggt verður að það sé laust við raka- og mygluskemmdir og uppfylli allar kröfur opinberra eftirlitsaðila.

Tölvumynd af væntalegum leikskóla við Rafstöðvarveg.

Mikilvægt skref til að fjölga leikskólaplássum

Leigugreiðslur munu miðast við vísitölu neysluverðs og leigutaki mun bera ábyrgð á rekstrarkostnaði, svo sem hita, rafmagni og þrifum. Reykjavíkurborg fær bæði forgangs- og forkaupsrétt að húsnæðinu ef það verður boðið til sölu á leigutímanum.

Með þessum samningi er stigið mikilvægt skref í átt að því að mæta aukinni þörf fyrir leikskólapláss í borginni og tryggja börnum öruggt og vel búið umhverfi til leikskóladvalar.

Frekari upplýsingar er að finna í fundargerð borgarráðs undir lið 13. 

Tölvumynd af væntalegum leikskóla við Rafstöðvarveg.