Sameiginlegur fundur foreldrafélaga í Reykjavík
Fulltrúar foreldrafélaga víðs vegar að í Reykjavík komu saman í maí á sameiginlegum fundi þar sem markmiðið var að kynna og miðla góðum hugmyndum um foreldrasamstarf. Fundurinn var vettvangur fyrir fræðslu, samtal og tengslamyndun – og ekki síst innblástur fyrir áframhaldandi starf.
Áskorun að fá foreldra til samstarfs
Sammerkt með þátttakendum var að öll foreldrafélögin glíma við þá áskorun hvernig hægt sé að fá fleiri foreldra til að taka þátt í þessu mikilvæga samstarfi.
Heimili og skóli kynnti í hverju þeirra starf felst og lagði áherslu á mikilvægi þess að efla tengsl heimila og skóla. Brúarsmiðir fóru yfir sitt mikilvæga starf sem snýst um að styðja fjöltyngda foreldra og fræða þá um skólakerfið á Íslandi og þær óskrifuðu reglur sem gilda í samfélaginu og gott er að kunna þegar fólk á barn eða börn í íslenskum grunnskóla. Þannig vinna brúarsmiðir við að byggja brú milli fjölskyldna og starfsfólks skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Verum klár í sumar
Soffía Pálsdóttir kynnti forvarnarverkefnið Verum klár, sem Reykjavíkurborg er að hrinda af stað. Verkefnið miðar að því að efla vitund samfélagsins um mikilvægi forvarna og hvetja foreldra til að vera meðvituð um ábyrgð sína – sem nær til 18 ára aldurs barna þeirra, líka yfir sumartímann.
Flotinn og verkefnið Viðbrögð við rasisma
Hjörleifur Steinn Þórisson kynnti starf Flotans, flakkandi félagsmiðstöðvar sem sinnir vettvangsstarfi í borginni utan hefðbundins opnunartíma. Starfsmenn Flotans heimsækja staði þar sem unglingar safnast saman og vinna að því að efla verndandi þætti og draga úr áhættuhegðun.
Saga Stephensen og Dagbjört Ásbjörnsdóttir kynntu verkefnið Viðbrögð við rasisma, sem nú er að fara í skólana. Verkefnið byggir á verklagi sem unnið var með starfsfólki leik- og grunnskóla og miðar að því að tryggja að alltaf sé brugðist við rasískum atvikum – með tilliti til aldurs og þroska barna.
Fundurinn einkenndist af opnum fyrirlestrum þar sem samtal og samræður áttu sér stað jafnóðum. Stemningin var mjög góð og í lokin lýstu fulltrúar yfir ánægju með kvöldið og var ákveðið að halda vinnustofur í haust og halda vinnunni áfram.