Sambærilegar áskoranir Reykjavíkur og Jakobstad
Reykjavík er pöruð við borgina Jakobstad í Finnlandi í evrópsku nýsköpunarverkefni í loftslagsmálum.
Þrír fulltrúar Reykjavíkurborgar, þau Ásdís Karen Waltersdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Friðrik Klingbeil Gunnarsson heimsóttu Jakobstad i í tveggja daga kynnis- og vinnuferð í nóvember. Borgirnar eru staðsettar á svipaðri breiddargráðu og glíma því við sambærilegar áskoranir, ekki síst þegar kemur að veðurfari, vetraraðstæðum og skipulagi samgangna. Þá er einnig mikil samlegð í úrgangsmálum og sjálfbærum lausnum í rekstri borganna.
Megintilgangur ferðarinnar var að dýpka tengslin enn frekar milli borganna, efla samstarfið og halda áfram gagnkvæmri þekkingaryfirfærslu innan ramma Tilraunaborgir.
Í heimsókninni fengu fulltrúar borgarinnar kynningu á staðháttum í Jakobstad, fóru í skoðunarferð um bæinn og kynntust helstu verkefnum borgarinnar, sérstaklega á sviði úrgangs- og samgöngumála. Þá var einnig farið í heimsókn til Ekorosk, sem sinnir úrgangsstjórnun á svæðinu og gegnir svipuðu hlutverki og Sorpa á höfuðborgarsvæðinu.
Deildu reynslu frá Reykjavík
Eitt af lykilatriðum ferðarinnar var miðlun á reynslu og lærdómi frá Reykjavík, meðal annars hvað varðar þróun sjálfbærra lausna í samgöngum, úrgangsstjórnun og loftslagsaðgerðum. Með samtali, kynningum og vettvangsferðum skapast gagnkvæmur skilningur á því hvað virkar vel í hvorri borg fyrir sig og hvaða lausnir megi yfirfæra milli staða.
Samstarfið heldur áfram á næsta ári þegar fulltrúar Jakobstad heimsækja Reykjavík vorið 2026. Þá verður áfram lögð áhersla á miðlun þeirrar þekkingar sem skapast í gegnum verkefnið Tilraunaborgir og frekari þróun sameiginlegra lausna í þágu sjálfbærrar borgarþróunar.