Rúmlega 5% landsmanna fengu velferðarþjónustu í Reykjavík árið 2024

Ragnar Th. Sigurðsson
Loftmynd af Reykjavík úr vestri, séð yfir Tjörnina á fallegum sumardegi

Meira en 20 þúsund einstaklingar fengu þjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á árinu 2024. Þetta má lesa úr ársskýrslu sviðsins sem kom út í dag. Skýrslan veitir gott yfirlit yfir þjónustu velferðarsviðs  við börn og fjölskyldur, eldra fólk, fatlað fólk, heimilislaust fólk, fólk af erlendum uppruna og aðra borgarbúa.  

 

Umfangsmikill hluti af rekstri borgarinnar

Velferðarþjónusta er umfangsmikil í rekstri borgarinnar. Þannig var hlutdeild velferðarsviðs af heildarrekstrargjöldum borgarinnar 27% á árinu, sem er sama hlutfall og árið á undan. Notendum velferðarþjónustu hefur fjölgað stöðugt á undanförnum árum en þeim fækkaði þó lítillega milli áranna 2023 og 2024, eða um 1,2%.  

Þjónusta með rafrænum leiðum verður sífellt aðgengilegri, ekki síst eftir tilkomu Rafrænnar miðstöðvar sem er fyrsta snerting notenda við þjónustuna. Rafræn miðstöð afgreiðir umsóknir og veitir fjarþjónustu í gegnum síma eða skjá. Nú eru nær allar umsóknir um velferðarþjónustu rafrænar, sem sparar notendum sporin til muna. Því fer þó fjarri að öll þjónusta byggi á rafrænum samskiptum en í öllum hverfum borgarinnar eru miðstöðvar þar sem veitt er umfangsmikil þjónusta, ráðgjöf, upplýsingar og stuðningur. 

Á árinu 2024 fengu… 

  • 1.878 fatlaðir einstaklingar 
  • 6.427 börn 
  • 4.716 eldri borgarar 
  • 3.402 einstaklingar með stöðu flóttafólks 

… þjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar af einhverju tagi. 

Sífellt meiri áhersla lögð á þjónustu heima 

Velferðarsvið veitir einstaklingum og fjölskyldum margvíslega þjónustu á heimilum þeirra. Má þar nefna heimaþjónustu en undir hana fellur bæði heimahjúkrun og heimastuðningur. Markmiðið er að veita einstaklingsbundinn stuðning og stuðla að því að fólk geti búið sem lengst í heimahúsi. Á árinu fengu 3.384 einstaklingar heimastuðning og 2.857 fengu heimahjúkrun.  

Innleiðing velferðartækni er afar mikilvæg til að ná því markmiði að fólk geti búið sem lengst í heimahúsi. Það er Velferðartæknismiðjan sem sér um innleiðingu, þróun og nýsköpun í nýtingu tæknilausna á vegum sviðsins. Á árinu 2024 nýttu 240 einstaklingar lyfjaskammtara og 144 einstaklingar tóku á móti skjáheimsóknum með reglubundnum hætti. Ýmis prófunarverkefni lofuðu góðu á árinu. Til að mynda tóku 25 einstaklingar  þátt í þróunarverkefni um fjarvöktun hjartabilunareinkenna og 83 einstaklingar fengu fjarþjálfun í heimahúsi með aðstoð stafræns einkaþjálfara.  

Fjölbreyttur starfsmannahópur 

Að baki fjölbreyttri þjónustu velferðarsviðs er stór hópur starfsfólks en að meðaltali störfuðu 3.500 einstaklingar á velferðarsviði á árinu. Í starfsmannahópnum er margt ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði en jafnframt reynslumikið fagfólk með mikla sérþekkingu. Starfsstaðirnir eru að sama skapi margir og fjölbreyttir en undir velferðarsvið heyrir 121 starfsstaður, þar af veita 78 starfsstaðir sólarhringsþjónustu.  

Skoðaðu skýrsluna í heild til að fræðast meira um fjölbreytta starfsemi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.