Reykvískir nemendur breyttu skóm í listaverk í Árósum

Listaverk úr skóm.

Tólf nemendur úr 7. bekk Háteigsskóla og Melaskóla tóku þátt í SPIN-verkefninu í Árósum dagana 29. september til 3. október, ásamt jafnöldrum frá Færeyjum og Danmörku. SPIN stendur fyrir Sprogvenner i Norden – kunsten at forstå hinanden, eða Tungumálavinir á Norðurlöndum – listin að skilja hvert annað. Verkefnið er kostað af Nordplus.

Skoða eigin sjálfsmynd og læra um aðra

Verkefnið snýst um að efla skilning og samkennd meðal barna á Norðurlöndum með því að kanna fjölbreytileika tungumála og menningar á skapandi hátt. Í gegnum listir og tjáningu hafa börnin fengið tækifæri til að skoða eigin sjálfsmynd og læra um aðra með það að markmiði að styrkja tilfinningu fyrir því að tilheyra í norrænu samhengi.

Reykvísk börn á ferð í Árósum. Ganga yfir gangbraut.

Skór sem sýna sporin sem þau vilja skilja eftir sig

Í Árósum unnu börnin að verkefnum sem byggja á eigin reynslu og hugmyndum um framtíðina. Þau umbreyttu skóm í listaverk sem tákna sporin sem þau vilja skilja eftir í heiminum – í anda Heimsmarkmiðs 4.7 um menntun til sjálfbærrar þróunar og virkrar þátttöku.

Vikunni lauk með glæsilegri sýningu í menningarhúsinu DOKK1 þar sem borgarstjórinn í Árósum opnaði sýninguna Spor i Norden. Verkefnið er unnið í samstarfi við Listasafn Íslands og DOKK1, undir stjórn Kristínar R. Vilhjálmsdóttur. Miðja máls og læsis tekur þátt fyrir hönd Skóla- og frístundasviðs.

SPIN er tveggja ára verkefni sem stuðlar að framtíðarsýn Norðurlandaráðs um samheldið og sjálfbært samfélag þar sem öll börn eru virt og skilin.

Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu verkefnisins.

Skór hangandi á listaverkasýningu.