Reykjavík styrkir Snjallræði áfram
Reykjavík hefur með samningi við Háskóla Íslands tryggt áframhaldandi stuðning við hraðalinn Snjallræði, en það verkefni miðar að nýsköpun í þágu samfélagsins með þátttöku öflugs nets samstarfsaðila. Auk Háskóla Íslands standa Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og MIT DesignX að rekstri verkefnisins. Borgarstjóri og rektor Háskóla Íslands skrifuðu undir samninginn í vikunni.
Verkefnið fellur vel að áherslum borgarinnar á nýsköpun, samfélagslega ábyrgð og fjölbreytileika, meðal annars með háu hlutfalli kvenna og þátttakenda af erlendum uppruna. Opið er fyrir umsóknir í hraðalinn á vef Snjallræðis – snjallraedi.is.
Samfélagsleg nýsköpun skiptir máli
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, segir ánægjulegt að samstaða sé um að halda verkefninu áfram með sömu gæðaviðmiðum og áður. „Við leggjum til fjármuni, vinnuframlag og aðstöðu og fáum í staðinn öflugan vettvang sem þegar hefur skilað árangri,“ segir borgarstjóri. Verkefni sem farið hafa í gegnum hraðalinn eru meðal annars Bergið Headspace, Green Bytes, Ploggin og Opni leikskólinn Memm. „Dæmin sýna að samfélagsleg nýsköpun skiptir máli,“ segir Heiða Björg.
Háskólarnir, MIT DesignX, Reykjavíkurborg, Vísindagarðar og Marel standa að Snjallræði. Á myndinni eru frá vinstri: Þórey Einarsdóttir, Gísli Karl Gíslason, Ásta Olga Magnúsdóttir, Svava Björk Ólafsdóttir, Ásgeir Jónsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Oddur Sturluson, Áslaug Ásgeirsdóttir, Kjartan Sigurðsson, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, Svafa Grönfeldt, Hannes Ottósson og Hulda Hallgrímsdóttir. Ljósmynd: Kristinn.
Aukin þátttaka innanlands
Frá upphafi hefur borgin stutt við Snjallræði og verður framlag borgarinnar 3 milljónir á ári 2025 og 2026. Áður styrkti borgin verkefnið allt að 10 milljónum en lækkunin skýrist af því að Massachusetts Institute of Technology (MIT) er nú að kenna íslenskum háskólum að beita aðferðafræði MIT DesignX. Þannig lækkar kostnaður við aðkomu MIT, en á móti kemur aukið vinnuframlag háskólanna sem tileinka sér aðferðafræðina sem er sannreynd og styður frumkvöðla við að þróa nýjar lausnir á flóknum samfélagslegum áskorunum.
„Snjallræði er vettvangur þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki, háskólar og borgaryfirvöld sameina krafta sína. Með áframhaldandi stuðningi tryggjum við að nýjar hugmyndir fái að dafna og tengslin milli rannsókna og nýsköpunar í þágu samfélagsins styrkist,“ segir Hulda Hallgrímsdóttir, teymisstjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Opið fyrir umsóknir
Umsóknarfrestur til að sækja um þátttöku í Snjallræði í ár er 17. ágúst 2025. Hægt er að nálgast frekari upplýsinga og sækja um á https://www.snjallraedi.is/