Orðlist í borgarlandinu: Nýtt verk við Tollhúsið

Fjölmennt var við afhjúpun verksins Róbert Reynisson
Frá afhjúpun ljóðlistaverks Sigurðar Pálssonar við Tollhúsið. Margmenni stendur í hálfhring og hlustar á Ragnar Helga Ólafsson rithöfund tala.

Ljóð eftir Sigurð Pálsson (1948-2017) afhjúpað við Tollhúsið í Tryggvagötu.

Frá því að Reykjavík hlaut titilinn Bókmenntaborg UNESCO árið 2011 hefur eitt af meginverkefnum hennar verið að gera bókmenntasöguna sýnilega í borgarlandinu. Víða  um borgina má finna bókmenntastanda, skilti og merkingar á stöðum sem hafa bókmenntalegt gildi á einn eða annan hátt, þar sem íbúar og gestir geta kynnt sér reykvísk skáld, sögur og tengsl skáldskapar við umhverfi borgarinnar.

Bókmenntaborgin hefur í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið unnið að því um árabil að setja bókmenntatexta niður í götur, gangstéttar og önnur rými borgarinnar. Markmiðið er að minna á ríka bókmenntaarfleifð Reykjavíkur, heiðra orðlistamenn, efla vitund um tungumálið, hvetja til orðlistar og skapa mannvænt borgarumhverfi, í samræmi við stöðu borgarinnar sem Bókmenntaborg UNESCO.

Dæmi um slík umhverfisverk eru texti Vilborgar Dagbjartsdóttur við steinbryggju á Kolabraut, tilvitnanir úr leikverki Jóhanns Sigurjónssonar Fjalla-Eyvindur við Þjóðleikhúsið og ljóð Þorsteins frá Hamri sem prýðir tröppurnar á Óðinstorgi.

Nú bætist nýtt verk í flóruna þar sem ljóð eftir Sigurð Pálsson (1948-2017) hefur verið sett niður við Tollhúsið við Tryggvagötu. Í ljóðum Sigurðar birtist jafnan næmt auga fyrir hreyfingu borgarinnar, breytilegu lífi íbúanna og spennu minninga og framtíðar á götum og torgum. Sigurður var áberandi og virkur þátttakandi í menningarlífi Reykjavíkur og lagði sitt af mörkum til að móta borgina bæði í listum og umræðu.

Skúli Helgason, formaður menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkurborgar flutti ávarp við formlega afhjúpun verksins og Ragnar Helgi Ólafsson rithöfundur fjallaði um gildi Sigurðar sem Reykjavíkurskálds og las upp ljóð hans.

Ljóð Sigurðar Pálssonar í stéttinni við Tollhúsið.