Opnun jólamarkaðar við Austurvöll og jólaljósin tendruð á Oslóartrénu

Róbert Reynisson
Oslóartréð á Austurvelli upplýst. Tekið frá þinghúsinu, skuggsýnt, fólk í kringum tréð

Jólamarkaðurinn við Austurvöll verður opnaður á morgun, laugardaginn 29. nóvember klukkan 13:00. Markaðurinn hefur stækkað frá því í fyrra og bjóða fleiri söluaðilar upp á fjölbreytt úrval af smávöru og spennandi jólavörum.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri opnar jólamarkaðinn formlega. Boðið verður upp á tónlistaratriði þar sem skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar flytur nokkur lög og hver veit nema jólasveinarnir láti sjá sig? Markaðurinn verður opinn allar helgar í desember og dagana 18.-23. desember. Öll velkomin!

Frá jólamarkaðnum við Austurvell í fyrra.

Jólaljósin tendruð á Oslóartrénu á Austurvelli

Jólaljósin á Oslóartrénu verða tendruð við hátíðlega athöfn á Austurvelli á fyrsta sunnudegi í aðventu þann 30. nóvember klukkan 16:00. Tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu markar upphaf jólahátíðarinnar í hugum og hjörtum borgarbúa.

Oslóarborg gaf í áratugi Reykvíkingum jólatré sem tákn um vináttu borganna og sameiginlegar hefðir og jólagleði. Þótt Oslóartréð komi nú úr Heiðmörk hefur það engu breytt um vináttuna og í stað jólatrés gefa borgaryfirvöld í Osló grunnskólum í Reykjavík bækur. 

Jólatréð var fellt í Heiðmörk nýlega. Tréð er liðlega 12 metra hátt sitkagrenitré og er það skreytt með 6.800 ljósum, 120 gylltum jólakúlum og á toppnum er fallega jólastjarnan.

Á Austurvelli verður jólaleg stemning þar sem tónlist, söngur og jólasveinar verða í aðalhlutverki.

Dagskrá:

Lúðrasveit Reykjavíkur leikur aðventu- og jólalög frá klukkan 15:30.

Unnsteinn Manúel og Salka Sól ásamt hljómsveit flytja falleg jólalög.

Sirin Stav borgarfulltrúi flytur kveðju frá Oslóarborg og afhendir þýddar bækur sem gefnar verða á skólabókasöfn í grunnskólum Reykjavíkur.

Heiða Björg Hilmisdóttir flytur þakkarræðu og norsk-íslenski drengurinn Johann Anda, 11 ára, aðstoðar við að tendra ljósin á trénu.

Jólasveinarnir Giljagaur og Askasleikir stelast í bæinn til að syngja og skemmta kátum krökkum.

Kynnir er Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikkona og verður dagskráin túlkuð á táknmáli.

Öll velkomin!