Opinn kynningarfundur um Sundabraut í Laugardal
Vel var mætt á opinn kynningarfund í Laugardalnum þriðjudagskvöldið 21. október en valkostir um legu Sundabrautar eru nú til kynningar. Tilefni fundarins var að umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar og drög að aðalskipulagsbreytingu eru komin í Skipulagsgáttina.
Góð þátttaka var í umræðum sem fram fóru eftir kynningar í fullum sal á Hótel Nordica. Guðmundur Valur Guðmundsson, fulltrúi Vegagerðarinnar og formaður verkefnisstjórnar um undirbúning Sundabrautar, kynnti verkefnið og efni umhverfismatsskýrslunnar á fundinum. Andri Gunnarsson og Ragnhildur Gunnarsdóttir, frá verkfræðistofunni EFLU, sem er ráðgjafi við gerð umhverfismatsskýrslunnar, fjölluðu um vegtengingar og afmarkaða þætti umhverfismatsins og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, fór yfir samspil framkvæmdarinnar og aðalskipulags borgarinnar. Fundarstjóri var G. Pétur Matthíasson.
Að spurningum loknum gafst fólki tækifæri til að rýna gögnin í samtali við sérfræðinga á nokkrum stöðvum í salnum og kynna sér málið nánar.
Spurt um umferðarnið og mótvægisaðgerðir
Í fyrirliggjandi umhverfismatsskýrslu leggur Vegagerðin fram tvo aðalvalkosti fyrir þverun Kleppsvíkur milli Sæbrautar við Sundahöfn og Gufuness, annars vegar jarðgöng og hins vegar 30 metra háa brú. Báðir valkostir fylgja sömu veglínu frá Gufunesi um Geldinganes, Gunnunes, Álfsnes og upp á Kjalarnes. Eiðsvík, Leiruvogur og Kollafjörður verða þveruð með landfyllingum og brúm. Þá var einnig farið yfir hvernig framkvæmdin myndi bæta flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu og samspil við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur.
Á meðal þess sem var rætt var á fundinum voru áhyggjur íbúa af umferðarnið og hljóðvist, einnig var rætt um mótvægisaðgerðir við því, spurt um umhverfið og náttúruna og einnig dýpkun og landfyllingar. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum, þar með talið umræðum hér:
Megin sjónarmið Reykjavíkur um framkvæmdina
- Bæti samgöngur fyrir alla ferðamáta; fyrir akandi, almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi.
- Að neikvæð áhrif á nálæga íbúðarbyggð og tengsl milli hverfa verði lágmörkuð.
- Hafi sem minnst áhrif á hafnarstarfsemi og leiði til hagfelldrar þróunar hafnarsvæðanna til lengri framtíðar.
- Að mannvirki falli vel að landslagi, náttúru og byggð og staðið verði að metnaði við hönnun þeirra útfrá fagurfræðilegum sjónarmiðum.
- Gatnamannvirki, brúarlausnir og landfyllingar verði með þeim hætti að áhrif á lífríki verði lágmörkuð.
- Að leitað verði leiða til að lágmarka umfang og landþörf stofnbrautar og gatnamannvirkin rýri sem allra minnst verðmæt útivistar- og náttúrusvæði, svo og framtíðar uppbyggingarsvæði.
Opið fyrir umsagnir til 30. nóvember
Fundurinn á Nordica var annar í röð opinna funda þar sem almenningi gefst kostur á að fá kynningu á framkvæmdinni, spyrja spurninga og setja fram athugasemdir. Markmiðið er að gefa fólki tækifæri til að kynna sér framkvæmdina milliliðalaust, fá ítarlegri upplýsingar og spyrja sérfræðinga um þau atriði sem helst brenna á því.
Alls verða þrír kynningarfundir vegna Sundabrautar haldnir í Reykjavík, þar sem fjallað verður um niðurstöður umhverfismats Sundabrautar og drög að aðalskipulagsbreytingu. Næsti fundur verður í Grafarvoginum í kvöld. Athugið breytta staðsetningu en fundurinn fer fram í Sambíóunum Egilshöll, sal 1.
- 21. október kl. 17:30-19:00. Hilton Reykjavík Nordica, Laugardal
- 22. október kl. 17:30-19:00. Sambíóunum Egilshöll
Umhverfismatsskýrslan og drög að aðalskipulagsbreytingu eru aðgengileg í Skipulagsgáttinni. Hægt er að senda inn umsagnir eða athugasemdir við hana til 30. nóvember næstkomandi.
Áréttað er að hér er um drög að að ræða sem fara nú í forkynningu áður en lögformleg aðalskipulagsbreyting verður endanlega mótuð og auglýst. Ákvörðun um endanlega útfærslu Sundabrautar í aðalskipulagi mun meðal annars byggja á niðurstöðum umhverfismatsins, sjónarmiðum sem koma fram í kynningarferlinu framundan og nánara samkomulagi milli borgar og ríkis.