Opið fyrir tilnefningar fyrir framsækið leikskólastarf

Mynd af starfsmanni leikskóla sýna börnum myndir í bók.
  • Viltu vekja athygli á gróskumiklu og framsæknu leikskólastarfi, grunnskólastarfi eða frístundastarfi á vegum Reykjavíkurborgar?
  • Veistu af metnaðarfullum þróunarverkefnum, skemmtilegum tilraunum, áhugaverðum samstarfsverkefnum leikskóla við grunnskóla eða frístundamiðstöðvar?
  • Viltu veita starfsfólki í leikskólum, grunnskólum eða í frístundastarfi í Reykjavík viðurkenningu og hvatningu?

Markmiðið er að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer á vegum Reykjavíkurborgar. Verðlaunin eiga að veita starfsfólki jákvæða hvatningu og stuðla að nýbreytni og þróunarstarfi. Verðlaunin eru viðurkenning á vel unnu verki í þágu barna og foreldra og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.

Öll geta tilnefnt

Auglýst er eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs vegna leikskólastarfs í Reykjavík. Opið er fyrir tilnefningar frá 1. nóvember 2025 - 15. janúar 2026. Skráningarform fyrir tilnefningar.

Öll geta tilnefnt til verðlaunanna; foreldrar, ömmur og afar, starfsfólk SFS, aðrir borgarstarfsmenn, leikskólar, grunnskólar, frístundamiðstöðvar, aðrar stofnanir og samtök. Við val á verðlaunahöfum verður haft til hliðsjónar að verkefnið sé öðrum til eftirbreytni og hvatning til góðra verka, svo og að fjölbreytt verkefni fái viðurkenningu. Þrjú verkefni sem skara fram úr verða verðlaunuð og fær starfsstaður viðurkenningarskjal og verðlaunagrip til eignar.