Nýtt Skiptiskjól í Laugardalnum

Skiptiskjólið við Sundlaugarveg.
Skiptiskjólið við Sundlaugarveg.

Reykjavíkurborg hefur tekið í notkun sitt fyrsta Skiptiskjól, sem er vettvangur fyrir íbúa þar sem þeir geta skipst á nytjahlutum í stað þess að þeir dagi uppi í geymslum.

Markmið skiptiskjólsins er að vekja athygli á og styrkja hringrásarhagkerfið. 

Verkefnið er sett upp sem tilraunaverkefni fram á haustið og verður framhaldið metið í kjölfarið. Fyrirmyndin kemur frá Danmörku, þar sem svokölluð byttebox eru orðin vinsæl, meðal annars í Árósum og Álaborg. 

„Bytteboxin vöktu áhuga okkar og ákváðum við að prófa þetta hér heima,“ segir Friðrik Klingbeil Gunnarsson, verkfræðingur á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg. „Við viljum færa þjónustuna nær íbúunum og styðja við mikilvægi þess að nýta hluti vel í stað þess að henda þeim eða kaupa nýtt.“ 

Ekki í samkeppni við nytjamarkaði 

Skiptiskjólið er ekki hugsað sem samkeppni við nytjamarkaði heldur sem lítil og þægileg viðbót við þá þjónustu sem þegar er til staðar. „Þetta er meira hugsað sem létt og aðgengileg lausn fyrir litla hluti sem fólk vill gefa áfram eða finna sér, án endurgjalds, og til að vekja athygli á mikilvægi hringrásarinnar,“ segir Friðrik. 

Hugmyndafræðin að baki verkefninu er sambærileg þeirri sem liggur að baki Fríbúðinni í Gerðubergi þar sem hægt er að skiptast á smærri nytjahlutum án greiðslu. Skiptiskjólið stendur við Sundlaugarveg og mun Sorpa hafa eftirlit með því eins og öðrum grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. 

Samstarf margra innan borgarinnar 

Skiptiskjólið er í raun samvinna skrifstofu umhverfisgæða, deildar borgarhönnunar og þjónustumiðstöðvar borgarlandsins sem lagði til gamalt strætóskýli og bekk fyrir utan og tók að sér endurgerðina. Skýlið var hannað af starfsmanni hjá deild borgarhönnunar, fengnar voru hillur frá Borgarbókasafninu Gerðubergi og blómakassar frá garðyrkjudeild Reyjavíkurborgar. 

Þá lagði Góði hirðirinn til upphafslager af nytjahlutum til að koma verkefninu af stað. Hugmyndin að nafninu Skiptiskjól kom frá starfsfólki umhverfis – og skipulagsviðs en haldin var nafnasamkeppni innanhús. 

Reynslan af þessu fyrsta skýli mun ráða því hvernig haldið verður áfram. „Við tökum þetta niður yfir vetrartímann og sjáum svo hvað við gerum næsta vor,“ segir Friðrik. Viðbrögð fólks hafa verið jákvæð fyrstu dagana og talsverð velta á hlutum, og vonast borgin til að íbúar taki þátt í að gefa hlutum lengra líf og draga úr sóun. „Við hvetjum öll til að nýta sér Skiptiskjólið!“ segir Friðrik að lokum.