Nýr vefur um náttúru Reykjavíkur

Umhverfi

Hrefna Sigurjónsdóttir, Sólrún Harðardóttir sem er höfundur vefsins og Helga Snæbjörnsdóttir.
Þrjár konur með plöntur í baksýn.

„Náttúra Reykjavíkur er mjög merkileg. Fáar borgir heimsins geta státað af öðru eins: villtum fuglum á tjörn, jökulsorfnum klöppum, laxveiðiá, ósnortnum fjörum, eyjum á sundum, lundum, gervigígum, steingervingum í setlögum, hrauni og jarðhita svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Sólrún Harðardóttir náttúrufræðingur og námsefnishöfundur við formlega opnun vefsins natturareykjavikur.is í Grasagarði Reykjavíkur í gær.

Vefurinn er fyrir krakka, unglinga og öll áhugasöm um umhverfið og náttúru Reykjavíkur. Þar er sagt frá hinu og þessu út frá jarðfræði, líffræði og landafræði en einnig er þar að finna fjölbreytt verkefni eða viðfangsefni. 

Líka fyrir kennara, leiðbeinendur og foreldra

Vefurinn er sérstaklega ætlaður börnum og er hugsaður þannig að þau vinni með hann í samstarfi við fullorðna, hvort sem það eru kennarar, leiðbeinendur í frístundastarfi, foreldrar eða aðrir ættingjar og vinir. Til dæmis er sérstakur kafli á vefnum um vettvangsferðir og hvaða búnað þarf til þeirra. Reglulega birtast fréttir á vefnum og er hægt að gerast áskrifandi að þeim.

Sólrún er höfundur og útgefandi vefsins en margir veittu henni ráðgjöf, sérstaklega Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor emeritus og Helga Snæbjörnsdóttir kennari í Hlíðaskóla. 

Þróunarsjóður námsgagna, Hagþenkir, Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg styrktu verkefnið. 

Öll áhugasöm eru hvött til að kynna sér þennan fróðlega og skemmtilega vef!

Þrír einstaklingar með gróður í baksýn.

Benedikt Traustason, verkefnastjóri á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, Sólrún Harðardóttir, höfundur vefsins og Hafsteinn Grétarsson frá útilífsborginni hjá Reykjavíkurborg.