Nýr samningur milli Aþenu íþróttafélags og Reykjavíkurborgar

Íþróttamiðstöðin Austurbergi 3
Íþróttamiðstöðin Austurbergi 3

Menningar- og íþróttaráð samþykkti á fundi sínum í gær samning milli Reykjavíkurborgar og Aþenu íþróttafélags, um styrk vegna íþróttastarfs. Samningurinn var samþykktur einróma.

Með nýja samningnum tekur Reykjavíkurborg yfir rekstur mannvirkisins að Austurbergi 3 með áherslu á að samnýta aðstöðuna eins og kostur er samhliða því sem Aþena fær nægan fjölda tíma og aðstöðu til að efla sína  starfsemi. 

Samningurinn undirstrikar sömuleiðis þá áherslu Reykjavíkurborgar að öll íþróttafélög í borginni fylgi mannréttindastefnu, jafnréttisstefnu og íþróttastefnu borgarinnar og gæti þess að stuðla að velferð, öryggi og farsæld barna í starfi sínu með börnum og ungmennum.  

Í bókun fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins segir meðal annars: 

Íþróttafélagið Aþena hefur starfað í Breiðholti undanfarin ár með þá stefnu að auka þátttöku stúlkna í hverfi þar sem þátttaka stúlkna í íþróttum og skipulögðu frístundastarfi er hvað minnst í borginni. Góður árangur hefur náðst í að fjölga iðkendum undanfarin 2 ár eftir að samningur við Reykjavíkurborg var undirritaður og hefur iðkendum fjölgað úr rúmlega 40 í 140 á tímabilinu. 

Með nýjum styrktarsamningi við Aþenu er lögð sérstök áhersla á valdeflingu stúlkna með því að þjálfun þeirra verði fyrst og fremst í höndum leikmanna meistaraflokks og ungmennastarfs sem gegna mikilvægu hlutverki sem fyrirmyndir þeirra sem yngri eru. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun: 

Ánægjulegt er að samkomulag hafi tekist milli íþróttafélagsins Aþenu og Reykjavíkurborgar um samstarf, sem felur m.a. í sér styrkveitingu til félagsins og afnot af íþróttahúsinu Austurbergi. Sátt er um þessa tilhögun milli Aþenu, Leiknis og borgarinnar að því er komið hefur fram hér á fundinum. 

Starfsemi Aþenu og Leiknis er öflug og eru vonir bundnar við að fyrirliggjandi samningur verði til að auka enn frekar þátttöku í íþróttastarfi í Efra Breiðholti, ekki síst stúlkna og barna og ungmenna af erlendum uppruna.