Nýr meirihluti í borgarstjórn
Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, var kosin borgarstjóri á sérstökum aukafundi borgarstjórnar í dag þar sem einnig var kosið í helstu ráð og nefndir. Nýr meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins kynnti einnig samstarfssáttmála sinn í dag.
Verkaskipting nýs meirihluta
Á aukafundi borgarstjórnar var kosið í helstu ráð og stöður og skiptu oddvitar meirihlutans með sér verkum með eftirfarandi hætti:
Borgarstjóri: Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar.
Formaður borgarráðs: Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna.
Forseti borgarstjórnar og formaður velferðarráðs: Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokks Íslands.
Formaður umhverfis- og skipulagsráðs: Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata.
Formaður skóla- og frístundaráðs: Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins.
Formennska í öðrum helstu ráðum og nefndum skiptist þannig:
Mannréttinda- og lýðræðisráð: Sabine Leskopf, Samfylkingu.
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð: Skúli Helgason, Samfylkingu.
Stafrænt ráð: Alexandra Briem, Pírötum.
Innkaupa- og framkvæmdaráð: Andrea Helgadóttir, Sósíalistaflokki Íslands.
Almannavarnarnefnd: Heiða Björg Hilmisdóttir, Samfylkingu og Líf Magneudóttur, Vinstri grænum.
Samstarfsyfirlýsing kynnt
Fyrr í dag kynntu oddvitarnir fimm sem skipa nýjan meirihluta samstarfsyfirlýsingu um lífsgæði í Reykjavík.
Tvær tillögur nýs meirihluta, annars vegar um breytt hlutverk mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og hins vegar um að leysa sitjandi íbúaráð frá störfum og fresta kosningum í ný íbúaráð voru teknar fyrir á fundinum.
Að loknum borgarstjórnarfundinum fara fram lyklaskipti á skrifstofu borgarstjóra, þar sem Einar Þorsteinsson, fráfarandi borgarstjóri, afhendir Heiðu Björgu Hilmisdóttur, nýkjörnum borgarstjóra, lykla að skrifstofu borgarstjóra.