Nýr leikskóli mun rísa hratt í Elliðaárdal

Framkvæmdir Skóli og frístund

Gert er ráð fyrir að Hitt húsið verði áfram á sínum stað en húsnæði fyrir leikskóla rísi hratt á lóðinni Róbert Reynisson
loftmynd af Hinu húsinu og svæðinu þar í kring, við rafstöðina í Elliðaárdal. Vetur, snjór.

Gengið verður til viðræðna við fasteignafélagið Laka fasteignir ehf. um að félagið byggi nýjan leikskóla við Rafstöðvarveg. Reykjavíkurborg mun taka leikskólann á leigu fyrir nýjan borgarrekinn leikskóla, sem stefnt er á að verði tilbúinn til notkunar á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Þetta var samþykkt í borgarráði í dag.

Reykjavíkurborg auglýsti í október síðastliðnum eftir húsnæði og lóð fyrir leikskóla, 800 til 2000 fermetra húsnæði ásamt 1400 til 1800 fermetra aðliggjandi útileiksvæði. Fasteignafélagið Laki fasteignir ehf. festi nýlega kaup á Rafstöðvarvegi 7 með kaupum á félaginu Rafkletti ehf. en Reykjavíkurborg hefur leigt húsnæðið undanfarin ár undir starfsemi Hins hússins. Rafklettur ehf. er jafnframt eigandi að byggingarrétti upp á rúmlega 1000 fermetra við hliðina á Rafstöðvarvegi 7. Í innsendu erindi Laka fasteigna til borgarinnar lýsir félagið sig reiðubúið að byggja leikskóla á þessari lóð, sem geti verið tilbúinn til notkunar innan tólf mánaða frá undirritun leigusamnings. Gert er ráð fyrir að Hitt húsið verði áfram á sínum stað.

Gott aðgengi fyrir öll

Laki fasteignir ehf. er fasteigna- og þróunarfélag sem sinnir fjárfestingum og umsjón fasteigna. Til að tryggja afhendingartíma leikskólans yrði notuð sama byggingaraðferð og notuð var við stækkun Hótels Akureyrar á síðasta ári. Þá var gert samkomulag við Qmodular í Póllandi og voru starfsmenn Laka ráðgjafar í ferlinu. Hótelið var byggt á fimm mánuðum með stálgrindarfyrirkomulagi, siglt með það til Akureyrar og reist þar á fimm dögum. Lokafrágangur tók síðan tvo mánuði eftir að byggingin var reist. Laki fasteignir er í lokahönnun á verkefni á Höfn í Hornafirði þar sem 70 herbergja hótelviðbygging verður gerð með sama hætti.

Við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal er mjög gott aðgengi fyrir hreyfihömluð sem og fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Þá er hæfilegur fjöldi bílastæða miðað við staðsetningu, fyrir starfsfólk og foreldra með börn í leikskóla.