Nýjar sánur opnaðar í Vesturbæjarlaug á 64 ára afmæli laugarinnar
Þriðjudaginn 2. desember klukkan 07:30 verða nýjar og glæsilegar sánur opnaðar í Vesturbæjarlaug. Af því tilefni verður frítt í laugina frá 07:00 til 10:00 þann dag og léttar morgunveitingar og ljúfir tónar í boði.
Borgarstjóri opnar nýju sánurnar við hátíðlega athöfn kl. 07:30 og eru öll hjartanlega velkomin.
Vesturbæjarlaug var vígð 25. nóvember 1961 og opnuð almenningi 2. desember sama ár. Það er því bæði ánægjulegt og táknrænt að ný og mikið endurbætt sánuaðstaða verði opnuð á sama degi – 64 árum síðar.
Laugin var upphaflega hönnuð af Bárði Ísleifssyni og var fyrsta sundlaug borgarinnar sem bauð upp á heitan pott. Fljótlega kom í ljós að stækka þyrfti aðstöðuna til að anna aðsókn og var því byggt við hana. Viðbygginguna hannaði Jes Einar Þorsteinsson, en hann kom að öllum viðbótum við laugina frá árinu 1967 og allt þar til hann lést sumarið 2024.
Í gegnum árin hefur Vesturbæjarlaug tekið ýmsum breytingum. Bætt hefur verið við heitum pottum og í júlí árið 2000 voru opnuð eimbað og núverandi útiklefar. Árið 2014 bættust við stór nuddpottur og vaðlaug, auk þess sem laugarsvæðið var stækkað og reist fallegt grindverk í kringum það. Sama ár var upprunalega heita pottinum breytt í kaldan pott sem hefur notið mikilla vinsælda síðan. Árið 2020 var reistur sérklefi og nú, árið 2025, bætast við tvær nýjar sánur og ein innrauð sána, en val á útfærslum byggir á samráði við íbúa.
Hönnun nýju sánurýmanna var í höndum Hebu Hertervig og Steinunnar Halldórsdóttur hjá VA arkitektum. Þeim tókst að skapa nútímalegar, fallegar og notalegar sánur sem halda þó í upprunalegan anda og sérkenni mannvirkisins.
Athygli er vakin á að handklæðaskylda er í sánunum til að tryggja hreinlæti og góða endingu.