
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB undirrituðu viljayfirlýsingu í morgun þess efnis að skoða nýjar leiðir til þess að auka framboð og hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík og þannig stuðla að auknu jafnvægi á fasteignamarkaði.
Viljayfirlýsing
Með þessari viljayfirlýsingu vill, verkalýðshreyfingin og Reykjavíkurborg hefja nýja sókn í húsnæðismálum.
Samvinna sem hefur borið árangur
Reykjavíkurborg, Alþýðusamband Íslands og BSRB hafa með samvinnu sinni undanfarin ár brotið blað í húsnæðismálum eftir stofnun ASÍ og BSRB á Bjargi og síðar Blæ og úthlutun Reykjavíkurborgar á stofnframlögum í formi fjölmargra lóða til uppbyggingar almennra íbúða í eigu þessara félaga.
Þannig hefur á annað þúsund efnaminni fjölskyldum á vinnumarkaði verið tryggt öruggt þak yfir höfuðið. Árangur verkefnisins hefur verið mikill og þá er eftirspurn eftir áframhaldandi uppbyggingu ótvíræður eins og biðlistar bera með sér.
Ég fagna þessum áfangasigri sem er í takt við sáttmálann okkar og fyrirhuguð áform um fjölbreytta byggð í Reykjavík.

Greina sóknarfæri
Komið verður á fót starfshópi, sem verður skipaður tveimur fulltrúum frá hverjum þessara aðila, sem er ætlað að setja fram hugmyndir að verkefnum sem geta skapað sóknarfæri í núverandi ástandi.
Helstu verkefni starfshópsins eru:
- Kanna hvort hægt er að flýta uppbyggingu húsnæðis í Úlfarsárdal (M22) með aðkomu innviðasjóðs í eigu lífeyrissjóða.
- Kortlagning mögulega áframhaldandi uppbyggingu íbúðahúsnæðis til næstu 10-15 ára, sem meðal annars byggist á þeim sóknarfærum sem skapast á grunni uppfærðs samgöngusáttmála.
- Rýna árangur verkefnisins „húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur“ og gera tillögur að hugsanlegum breytingum, nýjum svæðum til lóðaúthlutana eða annarra leiða til að fjölga slíkum íbúðum og úthlutunarreglum fyrir annan fasa verkefnisins.
Starfshópurinn hefur störf strax og er stefnt að því að hann skili niðurstöðum í lok maí. Aðilar eru sammála um að þegar niðurstöður starfshópsins liggja fyrir verði metið hvort og þá á hvaða grunni verði unnið áfram með niðurstöðurnar.