Ný handbók í kynfræðslu sem tekur mið af inngildingu og fjölbreytileika

Með styrk úr þróunar- og nýsköpunarsjóði skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur er að hefjast vinna við nýja handbók í kynfræðslu sem ber heitið Kynverund og kúltúr. Verkefnið er unnið í samstarfi við Fellaskóla, félagsmiðstöðina 111, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og sérfræðinga í inngildingu og fordómum.
Kennsluefni fyrir fjölbreytt samfélag
Verkefnastýrur Jafnréttisskóla skóla- og frístundasviðs munu halda utan um verkefnið sem er í startholunum. Markmiðið er að þróa kennsluefni sem tekur mið af fjölbreyttum tungumála- og menningarbakgrunni barna og ungmenna í íslenskum skólum.
Að sögn verkefnastýra, þeirra Maríönnu Guðbergsdóttur og Indíönu Rós Ægisdóttur, er þörfin brýn. Um 30 prósent grunnskólabarna á Íslandi eru með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn. Þær segja að hefðbundin kynfræðsla nái oft ekki til allra nemenda, ýmist vegna menningarlegra viðhorfa, tungumálaörðugleika eða misskilnings. Þetta geti skapað óöryggi og útilokað börn frá fræðslu sem þau eigi rétt á.
„Við viljum brúa þessi bil,“ segir Maríanna. „Ef fræðslan stemmir ekki við reynslu og gildi barna, eiga þau erfitt með að tengja við efnið. Þessi handbók mun hjálpa starfsfólki að móta nám sem bæði virðir bakgrunn og styrkir sjálfsmynd nemenda.“
„Ef fræðslan stemmir ekki við reynslu og gildi barna, eiga þau erfitt með að tengja við efnið."
Svar við ákalli frá skólum
Handbókin verður rafræn og aðgengileg öllum, með möguleika á reglulegri uppfærslu í takt við nýjustu þekkingu. Í henni verður að finna fræðslu um mismunandi menningarhópa, dæmisögur og hagnýtar leiðbeiningar fyrir kennara og starfsfólk í frístundastarfi. Lögð er áhersla á samráð við fagfólk og notendur í þróunarferlinu til að tryggja að efnið nýtist í raun.
Verkefnið svarar einnig ákalli frá vettvangi um bætt kynfræðsluefni og þjálfun starfsfólks. Slíkt ákall kom meðal annars fram í skýrslu starfshóps á vegum Mennta- og barnamálaráðuneytisins um markvissa kennslu í kynheilbrigði og ofbeldisforvörnum.
Öll þurfa að finna að þau skipti máli
„Við viljum að fleiri nemendur fái kynfræðslu sem þau geta tengt við,“ segir Indíana. „Markmiðið er að skapa örugg rými þar sem öll börn fá tækifæri til að skilja eigin réttindi og kynverund. Þetta snýst ekki um að sleppa viðkvæmum umræðuefnum, heldur að gera fræðsluna aðgengilegri og raunverulega inngildandi.“
Að lokum leggja þær áherslu á að inngilding snúist ekki aðeins um að öll séu með – heldur að öll finni að þau skipti máli. „Við þurfum að viðurkenna fjölbreytileikann og söguna okkar,“ segir Maríanna. „Til dæmis gætu sum ungmenni alist upp við skömm tengda kynverund, eins og sögur af svokölluðum ‘ástandsstúlkum’. Ef við viðurkennum slíka sögu og áhrif hennar, getum við betur náð til nemenda og gert fræðsluna merkingarbæra.“