Ný framtíðarsýn fyrir borgarperluna Viðey

Viðey að sumri til.

Viðey er eitt af helstu kennileitum Reykjavíkurborgar, einn merkasti sögustaður í landi borgarinnar og mikil náttúruperla. Í nýrri skýrslu um framtíðarsýn fyrir Viðey eru lagðar til ýmsar aðgerðir til að bæta aðgengi og þjónustu og efla kynningastarf um eyjuna.

Stýrihópur um helstu sóknarfæri og áskoranir sem tengjast Viðey hefur skilað skýrslu sinni um mótun nýrrar framtíðarsýnar fyrir Viðey, en síðasta stefnumótun fór fram árið 2001 og því komin til ára sinna. Stýrihópurinn var skipaður ágúst árið 2024 til þess að meta helstu sóknarfæri og áskoranir sem tengjast Viðey. 

Í stýrihópnum sátu borgarfulltrúarnir Skúli Helgason (formaður), Sabine Leskopf, Kjartan Magnússon og Stefán Pálsson. Starfsmenn hópsins voru Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur, Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða á umhverfis- og skipulagssviði, Hrönn Valdimarsdóttir, verkefnastjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði og Inga María Leifsdóttir, verkefnastjóri hjá menningar- og íþróttasviði.

Viðey er dýrmæt perla í borgarlandi Reykjavíkur, þar sem náttúra, menning og saga fléttast saman. Viðey er einn merkasti sögustaður í landi Reykjavíkur og eitt af helstu kennileitum borgarinnar. Umhverfið í Viðey er lítt snortið og að sama skapi viðkvæmt. Á síðustu áratugum hefur borgin vaxið mjög og segja má að byggðin teygi sig umhverfis eyna þar sem ný hverfi rísa í næsta nágrenni við hana, svo sem á Gufunesi og Ártúnshöfða. Því er brýnt að hugsa til framtíðar og greina gildi Viðeyjar og tækifæri fyrir komandi kynslóðir Reykvíkinga. 

Í vinnu stýrihópsins var farið yfir byggingar og mannvirki í eynni, aðgengismál, náttúrufar, sögu og menningarlandslag, skipulag, þjónustu og markaðssetningu og kynningu.

Brýnt er að auka vitund borgarbúa og gesta Reykjavíkur um Viðey og ágæti hennar, þar eru sóknarfæri. Tækifæri liggja í því að efla almennt kynningar- og markaðsstarf á Viðey til dæmis upplýsingar á vef, samfélagsmiðlum og í öðru kynningarstarfi hvort sem er áfangastað fyrir íbúa eða ferðamenn. 

Í niðurstöðum stýrihópsins kemur fram að  mikil lífsgæði geti falist í hlutverki Viðeyjar að vera vin í borgarlandinu, til útivistar, náttúruskoðunar, fræðslu og menningarupplifunar. 

Systurverk Friðarsúlunnar

Friðarsúlan í Viðey
Friðarsúlan í Viðey

Í niðurstöðu hópsins kemur fram að hefja skuli undirbúning á systurverki Friðarsúlunnar samkvæmt hugmyndum listakonunnar Yoko Ono. Hugmyndin að baki verkinu „Friðarósk“ (Peace House) er áningarstaður fyrir gesti Viðeyjar þar sem varðveittar eru óskir almennings um heimsfrið. Allt frá 1996 hefur Yoko Ono boðið fólki að skrá óskir sínar á þar til gerð tré víða um heim og er verkið stöðugt í vinnslu. Óskirnar verða gerðar 

aðgengilegar í hinu nýja verki í Viðey sem staðsett yrði á fallegum útsýnisstað til 

íhugunar og upplifunar. Fyrirhugað er að verkið verði látlaust í útliti og hönnun, falli vel 

að og skerpi enn frekar á gildi Viðeyjar sem friðarstað. Jafnframt er lagt til að samstarf verði aukið við Höfða friðarsetur um viðburðahald tengt friðarmálefnum í Viðey.

Aðrar niðurstöður:

  • Styrkja skal fræðsluhlutverk Viðeyjar gagnvart börnum og ungmennum með það að markmiði að yngsta kynslóðin í borginni tengist Viðey á jákvæðan og uppbyggilegan máta, með fræðslustarfi og námskeiðahaldi. Sett verði það markmið að öll grunnskólabörn heimsæki Viðey a.m.k einu sinni á skólagöngunni og taki þátt í verkefnavinnu sem tengist Viðey.
  • Aðgengi verði bætt í Viðey þar með talið að helstu mannvirkjum og menningarminjum í eynni. Sérstök áhersla verði lögð á aðgengismál til og frá Viðey og setja skal stefnuna að því að tryggja aðgengi fyrir öll að Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju,
  • Skerpt verði á hlutverki og gildi Viðeyjarstofu og - kirkju og unnið að því að tryggja varðveislu þeirra, sem elstu steinhúsa Reykjavíkur og einstakra sögufrægra bygginga
  • Stefna skal að aukinni nýtingu mannvirkja Viðeyjar með áherslu á Viðeyjarstofu, Viðeyjarkirkju, Skóla, Ráðsmannshúsið, Naustið og Vatnstank
  • Efldar verði náttúrufarsrannsóknir í eyjunni.
  • Efnt verði til Borgarkönnunar til að fá fram viðhorf og afstöðu borgarbúa til Viðeyjar og hugmynda um aukið aðgengi, örva markaðssetningu og kynningu á Viðey  sem sögufrægum og friðsælum áningastað í borgarlandinu gagnvart innlendum og erlendum ferðamönnum.
  • Huga þarf að þjónustuframboði og úrbótum varðandi þjónustustig, þ.m.t. veitingasölu á sumrin og yfir vetrarmánuðina.
     

Stefna fyrir Viðey - skýrsla stýrihóps 2025

Viðey - kynning stýrihóps á fundi menningar- og íþróttaráðs