Ný brunavarnaáætlun samþykkt
Ný brunavarnaáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) hefur tekið gildi. Áætlunin tekur við af eldri áætlun sú nýja gildir í fimm ár, eða til ársins 2030.
Ný brunavarnaáætlunin er samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og sveitarfélögum á starfssvæði slökkviliðsins. Markmið brunavarnaáætlunar er samkvæmt lögum um brunavarnir að tryggja að slökkvilið sé mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað til að ráða við þau verkefni sem því er falið. Áætlunin byggir á áhættumati starfssvæðisins, sem ræður stærð og skipulagi slökkviliðsins og er grundvöllur að forgangsröðun aðgerða og fjármagns og eykur öryggi íbúa svæðisins.
Áætlunin var undirrituð af stjórn SHS sem er skipuð Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra Reykjavíkur, Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs, Valdimari Víðissyni bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar, Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra Mosfellsbæjar og Þór Sigurgeirssyni bæjarstjóra Seltjarnarness. Einnig undirritaði Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri áætlunina fyrir hönd Kjósarhrepps, sem og Hermann Jónasson forstjóri HMS og Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS.
„Höfuðborgarsvæðið hefur vaxið hratt undanfarin ár og samkvæmt spám mun sá vöxtur halda áfram. Mikil fólksfjölgun, þróun byggðar og uppbygging á svæðinu hefur haft áhrif á starfsemi SHS. Má þar meðal annars nefna aukið álag og lengri viðbragðstíma. Einn liður í því að bæta viðbragð hjá okkur er bygging nýrrar slökkvistöðvar í Tónahvarfi í Kópavogi sem er áætlað að komist í gagnið innan fimm ára. Einnig eru áform um byggingu á stöð á Völlunum í Hafnarfirði á næstu 10 árum,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og formaður stjórnar SHS.
„Brunavarnaáætlun er öllum slökkviliðum mikilvægt stjórntæki í þeirra lögbundnu verkefnum í brunavörnum. Verkefni Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins eru fjölbreytt þar sem slökkviliðið er það stærsta á landinu og starfssvæðið er bæði þéttbýlt og víðfemt. Í þessari áætlun er farið ítarlega yfir hvernig uppbygging hjá liðinu þarf að vera á næstu árum til að geta tekist á við þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir,” segir Hermann Jónasson forstjóri HMS.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS kveðst fagna útkomu nýju brunavarnaáætlunarinnar og segir spennandi tíma framundan hjá SHS í uppbyggingu slökkviliðsins. „Ný áætlun gerir okkur enn betur kleift að sinna okkar lögbundnu verkefnum áfram vel, ásamt öðrum sem okkur er falið að leysa,“ segir Jón Viðar.