Niðurstöður Lesmáls tækifæri til að efla kennsluhætti
„Mestu skiptir að nýta þessar niðurstöður í þágu barna og til að efla kennsluhætti,“segir Sigrún J. Baldursdóttir hjá Miðju máls og læsis á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, um niðurstöður úr prófinu Lesmáli sem lagt var fyrir síðasta vor.
Prófið taka nemendur í lok 2. bekkjar og metur það fjóra þætti lesturs eins og umskráningu og lesskilning ásamt því að meta færni í réttritun og leshraða.
Með prófinu segir Sigrún hægt að finna styrkleika og veikleika barna í lestri og þar af leiðandi hvernig hægt sé að mæta þeim og vinna markvisst að betri árangri.
Meginniðurstöður prófsins:
- 68 prósent nemenda náðu að minnsta kosti 61 prósent árangri, sem telst aldurssvarandi hæfni í lestri. Þar af náðu 16 prósent nemenda 91-100 prósent árangri og teljast hafa náð mjög góðum tökum á lestrinum.
- 25 prósent nemenda náðu 31–60 prósent árangri og þurfa tímabundið á sérstökum stuðningi að halda í lestri.
- 7 prósent nemenda náðu 0–30 prósent árangri og þurfa einstaklingsáætlun með skipulögðu vinnulagi og stuðningi byggðum á gagnreyndum aðferðum.
Nýting niðurstaðna og stuðningur
Miðja máls og læsis (MML) sem er þekkingarteymi á skóla- og frístundasviði býður upp á ráðgjöf og stuðning til skóla þar sem færri en 60 prósent nemenda ná aldurssvarandi hæfni. Læsisteymi þeirra skóla verða boðuð á fund með MML og fulltrúum miðstöðva þar sem farið verður yfir niðurstöður og aðgerðaráætlun unnin.
Skólar sem skara fram úr eða þar sem 80 prósent eða fleiri ná aldurssvarandi hæfni verða einnig boðaðir á fund til að deila árangursríkum vinnubrögðum og kennsluháttum. Í framhaldinu verða þeirra verkefni og vinnulag kynnt öðrum skólum.
Miðstöðvarnar með aðstoð MML munu einnig skoða stöðu leikskóla í sínum hverfum út frá niðurstöðum Lesmáls. Þar verður vinnuskipulag læsis rýnt sem og hvernig eflingu málþroska er háttað.
Sérstakri athygli verður beint að stöðu fjöltyngdra barna í skólum sem koma illa út úr prófinu og verður þeim skólum boðinn aukinn stuðningur.
Allir borgarreknu grunnskólarnir tóku þátt
Alls sendu 35 af 37 skólum í Reykjavík inn niðurstöður til skóla- og frístundasviðs, allir almennir grunnskólar með 2. bekk sem eru 32 og þrír af fimm sjálfstætt starfandi grunnskólum. Samtals tóku 1.269 nemendur þátt í Lesmáli sem jafngildir 90 prósent af nemendum í öðrum bekk í öllum almennum og sjálfstætt reknum grunnskólum Reykjavíkur vorið 2025.