
Þessa dagana taka nemendur í 6. bekk Melaskóla og Háteigsskóla þátt í Nordplus-verkefni ásamt jafnöldrum frá Þórshöfn í Færeyjum og Árósum í Danmörku. Verkefnið heitir SPIN sem er skammstöfun fyrir Sprogvenner i Norden - kunsten at forstå hinanden eða Tungumálavinir á Norðurlöndum – listin að skilja hvert annað.
Fjöltyngi er dýrmæt auðlind
Verkefnið byggir á þeirri grunnhugsun að fjöltyngi sé dýrmæt auðlind. Markmið SPIN er að efla næmi fyrir menningarlegum fjölbreytileika og stuðla að inngildingu. Börn dýpka skilning á eigin tungumála- og menningarlegum fjölbreytileika, sem og jafnaldra sinna á Norðurlöndum, gegnum fjölbreytt skapandi verkefni og listræna tjáningu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Listasafn Íslands og Menningarhúsið Dokk1 í Árósum. Verkefnastjóri SPIN er Kristín R. Vilhjálmsdóttir og Miðja máls og læsis tekur þátt í verkefninu fyrir hönd Skóla- og frístundasviðs.
Afurðin verður sýnd á Barnamenningarhátíð
SPIN hófst í október 2024 og er til tveggja ára. Fyrsta aðkoma krakkanna var í desember þegar þau sendu hvert öðru myndbandskveðjur yfir hátíðarnar. Allir 250 þátttakendurnir í verkefninu hafa fengið þjálfun og unnið skapandi verkefni út frá sjálfsmyndum og fjölbreytileika. Einnig hafa þau öll tekið þátt í Menningarmóti þar sem foreldrum og öðrum úr nærumhverfi barnanna var boðið að skoða afrakstur vinnunnar, hlusta á og eiga samtöl við börnin.

Krakkarnir hafa öll farið í gegnum menningarmótsferli með Kristínu V. í sínum skóla, Háteigsskóli er síðastur og lýkur ferlinu í vikunni. Í öllum skólum verða valdir sex nemendur, SPIN sendiherrar og þau hittast í fyrsta skipti hér á Íslandi í fyrstu vikunni í apríl og vinna saman sýninguna sem sýnd verður á Barnamenningarhátíð í Safnahúsinu Hverfisgötu. Í haust verður síðan svipað verkefni með sama hóp en í Danmörku, þá í Dokk1. Þá fara nokkur börn úr Melaskóla og Háteigsskóla sem sendiherrar verkefnisins. Frekara samstarf milli nemenda er í mótun og þróast með verkefninu.
