Nemendur í Hagaskóla söfnuðu 3,6 milljónum fyrir góð málefni

Afhending söfnunarfés.

Góðgerðardagurinn Gott mál var vel heppnaður sem endranær þegar hann var haldinn í Hagaskóla í þrettánda sinn nú í maí. Fjöldi gesta úr hverfinu lagði leið sína í skólann og naut þess sem nemendur höfðu lagt mikla vinnu í að undirbúa vikurnar á undan.

Nemendur skipulögðu viðburðinn frá grunni

Á dagskránni var fjölbreytt afþreying sem nemendur stóðu fyrir, þar á meðal veitingasala, happadrætti, andlitsmálning, draugahús, reif, tónlistaratriði, leikir og jafnvel hársnyrting. Í salnum var einnig kaffihús þar sem gestir gátu tyllt sér niður og notið lifandi tónlistar.

Nemendur höfðu sjálfir skipulagt viðburðinn frá grunni, útvegað allan efnivið og sinnt framkvæmdinni af mikilli elju. Skólastjóri Hagaskóla, Ómar Örn Magnússon, sagði í stuttu ávarpi að þó að fjárhæðin sem safnaðist væri mikilvæg væri meginmarkmið dagsins að nemendur upplifi hversu áhrifaríkt það er að láta gott af sér leiða og að góðverk geti skipt sköpum í lífi annarra.

Sassa Eyþórsdóttir sem stýrði verkefninu tekur í sama streng og Ómar og segir tilganginn margþættan en fyrst og fremst að nemendur finni á eigin skinni hversu mikilvægt það er að láta gott af sér leiða og hvernig góðverk geti breytt lífi annarra til góðs. Nemendur kynna sér mannúðarsamtök og hjálparstarf og skoða hvaða leiðir þau sjálf hafa til að koma af stað breytingum bæði í sínu nærsamfélagi og í stærra samhengi.

Nemendur í Hagskóla á góðgerðardegi

Styrkja Kvennaathvarfið og ungmennahús í Afganistan

Venjan er að nemendur velji eitt innlent málefni og eitt erlent til að styrkja og fer það fram með lýðræðislegri kosningu allra nemenda eftir miklar umræður og hugmyndavinnu. Í ár völdu nemendur að styrkja annars vegar Kvennaathvarfið og aðstöðu fyrir unglinga í nýju húsnæði. Hins vegar völdu þau samtökin AFGA sem meðal annars starfrækja ungmennahús í Afganistan sem veitir unglingum fjölþætta aðstoð. Alls söfnuðust 3,6 milljónir króna sem skiptust á milli verkefnanna. 

Dagurinn var vel sóttur og með honum heldur Hagaskóli áfram að efla samfélagslega ábyrgð og styrkja meðvitund nemenda um mikilvægi góðgerðastarfs.

 

Svandís Egilsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ómar Örn Magnússon, SteinnJóhannsson, Sigríður Nanna Heimisdóttir
Frá vinstri: Svandís Egilsdóttir fagstjóri grunnskóla í Vesturmiðstöð, Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra, Ómar Örn Magnússon skólastjóri Hagaskóla, Steinn Jóhannsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Sigríður Nanna Heimisdóttir, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla.