Munduverðlaunin 2025: Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Afhending úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi fór fram í 25. sinn fimmtudagskvöldið 5. júní við opnun sýningarinnar Erró: Remix í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Handhafi verðlaunanna í ár er Anna Júlía Friðbjörnsdóttir. Sanna Magdalena Mörtudóttir, forseti borgarstjórnar, afhenti styrkinn.
Handhafi Guðmunduverðlaunanna 2025, Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, er fædd árið 1973 og býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur unnið að myndlist í um tuttugu ár en hefur á síðustu árum vakið aukna athygli fyrir áhugaverð verk og öfluga innkomu í íslenska myndlistasenu, jafnframt því að sýna alþjóðlega.
Styrkur úr sjóðnum er veittur framúrskarandi listakonu og er honum ætlað að vera hvatning til frekari dáða á sviði myndlistar.Erró stofnaði Munduverðlaunin árið 1997 til minningar um móðursystur sína, Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. Með því vildi hann leggja sitt af mörkum til framþróunar íslenskrar myndlistar og hvetja myndlistarkonur til dáða. Peningaupphæðin, ein milljón og tvöhundruð þúsund, er nú hæsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi. Þetta er í 25. sinn sem styrkurinn er veittur og er það afar öflugur hópur listkvenna sem fengið hefur viðurkenninguna.
Tekst á við tengsl vísinda og menningar í verkum
Verk Önnu Júlíu eru hugmyndalega heilsteypt um leið og efnisval og úrvinnsla bera vott um næmi og einstaka hæfileika til að úrfæra hugmyndir í ólík efni. Hún vinnur þvert á miðla og tekst á áhugaverða hátt á við tengsl vísinda og menningar í verkum sem taka mið af samtímanum með sterkar sögulegar vísanir. Anna Júlía lauk MA gráðu frá Manchester School of Arts, Manchester Metropolitan University, 2004 og BFA gráðu frá London Guildhall University 1998. Áður stundaði hún nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1993-95. Hún var meðstofnandi og ritstjóri myndlistartímaritsins Sjónauka sem var gefið út á árunum 2007-2009.

Á ferli sínum hefur Anna Júlía tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið fjölmargar einkasýningar, ber þar helst að nefna þátttöku hennar í sýningunni Iðavöllur í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi árið 2021 og einkasýninguna Erindi í Hafnarborg en fyrir hana var hún tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2018. Verk hennar hafa vakið athygli jafnt hér heima sem erlendis en árið 2022 hlaut hún eftirsóttan styrk til ársdvalar í Kunstlerhau Behtanine í Berlín þar sem sett var upp einkasýning á verkum hennar. Nýlega lauk glæsilegri einkasýning á nýjum verkum eftir hana í Berg Contemproary í Reykjavík.