Margar hendur Menningarnætur- takk og sjáumst að ári!
Menningarnótt var haldin hátíðleg í Reykjavík laugardaginn 23. ágúst. Hátíðin er sameiginlegt verkefni fjölmargra íbúa, rekstraraðila, viðbragðsaðila og Reykjavíkurborgar og að vanda var afmæli borgarinnar fagnað, en Reykjavík varð 239 ára þann 18. ágúst síðastliðinn.
Mikill undirbúningur
Margra mánaða undirbúningur er að baki risastórri hátíð sem þessari og varlega áætlað koma um 150 manns hjá Reykjavíkurborg að skipulagningu og framkvæmd Menningarnætur. Sú vinna fer fram í góðu samstarfi við fjölmarga og strax í janúar hefjast undirbúningsfundir og samtöl við viðbragðsaðila eins og lögreglu og slökkviliðið og samstarfsaðila eins og Strætó, rafskútuleigur, fulltrúa ferðaþjónustunnar, rekstraraðila í borginni og marga fleiri.
Hátíðin sífellt í skoðun
Að lokinni hátíð er farið yfir allt og gerðar breytingar til að bæta viðbragð og skipulag ef þurfa þykir. Strax í byrjun sumars fer allt á fullt í samstarfi borgarinnar og hinna fjölmörgu viðburðahaldara sem gera hátíðina svo einstaka. Unnið er úr umsóknum í viðburðapott Landsbankans og styrkjum úthlutað til þeirra sem vilja vera með uppákomur á hátíðinni. Þegar nær dregur er farið vandlega yfir öryggismál, götulokanir, bílastæði, umhirðu, fánaborgir, hjólastanda, salernismál, rafskútustæði, kynningarmál og margt fleira. Þessi fjölmennasta þátttökuhátíð Íslands er sannkallað samvinnuverkefni almennings, stofnana, atvinnulífsins og borgar.
Lögreglan notaðist meðal annars við reiðhjól til að ferðast um hátíðarsvæðið.
Götulokanir og vöktun
Undirbúningur hátíðarsvæðis Menningarnætur í miðborginni hefst á hádegi fimmtudags. Á deginum sjálfum er hátíðarsvæðinu lokað fyrir umferð akandi vegfarenda frá 7:00 að morgni til 23:00 til að tryggja öryggi gangandi fólks. Fyrir Reykjavíkurmaraþonið þarf að sjá um uppsetningu á búnaði og loka götum til að greiða leið keppenda. Um leið og maraþoni lýkur hefst frágangur eftir hlaupið.
Samtals voru 12 mannaðar lokanir og 63 ómannaðar lokanir. Lokunum að þessu sinni fylgdi meðal annars eftirfarandi:
- 20 bílar og um 400 metrar af götulokunarbúnaði
- 57 leiðbeiningaskilti
- 150-200 keilur
- 150 umferðarmerki
- 100 harmonikkuhlið
Hrein borg
Mikilvægur liður í hátíðinni er að sjá til þess að miðborgin sé snyrtileg á meðan á Menningarnótt stendur. Vaskur hópur starfsfólks hjá borgarumhirðu Reykjavíkurborgar sér um að hirða rusl og tæma ruslafötur fljótt og örugglega og unnið er allan sólarhringinn fyrir og eftir hátíðina.
Í Hörpu var glæsileg og vel sótt dagskrá.
Verum klár á Menningarnótt
Á Menningarnótt er ávallt reynt að tryggja að hátíðin fari vel fram.
Reykjavíkurborg stendur fyrir átaki undir formerkjunum Verum klár þar sem send eru jákvæð skilaboð til ungs fólks og aðstandenda þeirra um samveru og heilbrigðan lífstíl.
Fjöldi ungmenna sækir Menningarnótt á hverju ári. Lögð er áhersla á að starfsfólk frístundaheimila og forvarnaraðilar séu sýnileg í miðborginni og ræði við ungmenni eða aðstoði ef þörf er á. Í ár var bætt um betur og rúmlega tvöfalt fleiri en áður stóðu vaktina í miðborginni í þessum tilgangi. Frá eftirmiðdegi og þar til hátíðinni lauk og í sumum tilfellum töluvert lengur, voru 69 starfsmenn frá Reykjavíkurborg og nágrannasveitarfélögum á ferðinni til að veita ungu fólki aðstoð og ráðgjöf ef með þurfti.
Samtals voru 56 starfsmenn frá félagsmiðstöðvum að störfum á Menningarnótt, 28 frá Reykjavíkurborg og 28 frá öðrum sveitarfélögum; Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Árborg, Reykjanesbæ og Akranesi. Starfið felst í að vera á göngu með lögreglu, í athvarfi og á vettvangi í alls 10 teymum. Þá voru 13 starfsmenn frá miðstöðvum velferðarsviðs í gönguteymum og í athvarfi. Samstarf við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu gekk afskaplega vel.
Heimsóknir á vef Reykjavíkurborgar
Fjöldi heimsókna á vef Menningarnætur 2025 var 146.386 og síður voru skoðaðar 242.431 sinnum. Þar af voru heimsóknir á enska útgáfu vefs Menningarnætur 25.367 og síður voru skoðaðar 40.030 sinnum.