Málþing um fjölbreyttar samgöngur
Reykjavíkurborg stendur fyrir opnu málþingi í Tjarnarsal fimmtudaginn 18. september klukkan 9, ásamt Vegagerðinni, Betri samgöngum og Strætó BS. Öll velkomin!
Eftir því sem íbúum fjölgar á höfuðborgarsvæðinu eykst þörfin á fjölbreyttum samgöngum en hver íbúi fer að meðaltali um fjórar ferðir á dag til að sinna erindum sínum. Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins tryggir fjármögnun á uppbyggingu samgönguinnviða. Það þýðir meðal annars fjölgun sérstakra hjólastíga sem eru góðar fréttir fyrir samgönguhjólreiðar.
Talning með 30 sjálfvirkum reiðhjólateljurum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið sýnir að hjólanotkun hefur aukist bæði yfir vetur og sumar. Þess má geta að árið 2002 var hlutdeild hjólreiða í umferðinni aðeins 1%. Núna er hlutdeildin tæplega 7%.
Hjólatalning í ágúst sýnir aukningu á milli ára, 5,57% á sex lykilstöðum innan Reykjavíkur og um 2,7% á öllu höfuðborgarsvæðinu. Þann 20. ágúst var þriðji stærsti dagur ársins hingað til, þar sem 18.528 hjóluðu þann dag.
Á málþinginu verður meðal annars fjallað um hvernig umhverfi sem er hannað fyrir okkur öll getur aukið ferðafrelsi og sjálfstæði einstaklinga sem eru háðir öðrum ferðamátum en bílnum.
Breytingar á leiðakerfi landsbyggðarvagna taka gildi 1. janúar 2026. Vegagerðin vinnur að endurskoðun leiðakerfisins til að sinna breyttri ferðahegðun notenda og til að innleiða orkuskipti í landsbyggðarvögnum.
Svar fæst á málþinginu við spurningunni: „Hvernig geta vinnustaðir í miðborg Reykjavíkur geti aukið hlutdeild vistvænna ferðamáta hjá starfsfólki sínu með breyttum áherslum og hvötum?“
Sagt verður frá skýrslu með tillögum að heildstæðri stefnu stjórnvalda og aðgerðaáætlun um virka ferðamáta og smáfarartæki. Fjallað verður um virkni borgarlínustöðva og sýndar teikningar og myndir af þeim.
Nýr rafmagnsstrætó verður til sýnis fyrir utan Ráðhúsið fyrir hádegi á morgun, 18. september.
Dagskrá: Fjölbreyttar samgöngur fyrir öll klukkan 9-11.
- Ávarp borgarstjóra – Heiða Björg Hilmisdóttir
- Nýtt leiðakerfi og þjónustuaukning Strætó – Sólrún Svava Skúladóttir, Strætó BS
- Borgarlínustöðvar og aðgengi – Yngvi Karl Sigurjónsson, Yrki Arkitektar
- Nýtt leiðakerfi landsbyggðarvagna og nýjungar – Hulda Rós Bjarnadóttir, Vegagerðin
- Gönguvæn borg og borgarhönnunarstefnan – Rebekka Guðmundsdóttir, Reykjavíkurborg
- Hjólreiðaborgin Reykjavík – myndband
- Drög að stefnu stjórnvalda um virka vegfarendur, Sigrún Helga Lund prófessor, formaður starfshópsins
- Aðgengi fyrir öll – Berglind Hallgrímsdóttir, EFLA
- Öryggisatriði og bætt flæði almenningssamgangna – Cecilía Þórðardóttir, Vegagerðin
- Bylting fyrir blinda og sjónskerta, Hlynur Þór Agnarsson, fyrir hönd Blindrafélagsins
- Áhrif samgöngustyrkja og aðgengilegra bílastæða á ferðavenjur fólks, Valur Elli Valsson, EFLA
- Lokaorð – Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs.