
Hólabrekkuskóli, Foldaskóli og Melaskóli hlutu Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs og Vogaskóli og félagsmiðstöðin Buskinn fengu viðurkenningu fyrir samstarfsverkefni. Hvatningarverðlaun eru veitt ár hvert fyrir leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarf á vegum borgarinnar. Verðlaun fyrir starf í grunnskólum voru afhent á árlegri Öskudagsráðstefnu í gær.
Markmið með verðlaununum er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Verðlaunin eiga að veita starfsfólki jákvæða hvatningu, ásamt því að viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu skóla- og frístundastarfs og staðfesting þess að starfið geti verið fyrirmynd annarra.
Verkefnin þrjú sem hljóta hvatningarverðlaun hér í dag hafa beina skírskotun í menntastefnu Reykjavíkurborgar og tengjast grundvallarþáttum hennar og leiðarljósum.
Hólabrekkuskóli – Á ferð og flugi
Á ferð og flugi er menningarverkefni á miðstigi í Hólabrekkuskóla sem gengur út á að fara með nemendur út fyrir nærsamfélagið og stuðlar þannig að inngildingu allra nemenda með auknu menningarlæsi. Einnig stuðlar verkefnið að aukinni hreyfi- og rýmisgreind og félagsþroska.
Farið er á söfn, gengið í gegnum Grjótaþorpið og Hólavallakirkjugarð, Myndlistaskólinn í Reykjavík er heimsóttur sem og Norræna húsið, og styttur borgarinnar kannaðar svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur fá tækifæri til að efla og virkja ímyndunarafl sitt, efla sjálfstæði og finna sköpunarkrafti sínum farveg í verkefninu. Vorið 2024 tók verkefnið þátt í Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars í samstarfi við Norræna húsið.
Eflir tengsl við samfélagið
Í umsögn dómnefndar kemur fram að í heimi þar sem upplifun barna af umhverfi sínu er æ oftar matreidd fyrir þau á Internetinu er mikilvægt að skólinn gefi nemendum rými til að staldra við, fara út fyrir hefðbundinn radíus nærumhverfisins og upplifa á eigin skinni aðstæður í rauntíma, ef svo má að orði komast. Á ferð og flugi hefur skýr markmið en þau miða að því efla tengsl nemenda við samfélagið í gegnum ferðir, menningarlæsi og sköpun. Verkefnið eykur þekkingu nemenda á því menningarsamfélagi sem Reykjavík er - í sinni víðustu mynd. Á ferðalögum sínum, og í samvinnu við bekkjarfélaga og gestgjafa hverju sinni, kynnast þau menningu borgarinnar, ólíku listformi, sköpun og eflast í félags- og samskiptafærni.
Það er mat dómnefndar að verkefnið Á ferð og flugi leggi grunn að menningarlegum áhuga nemenda til framtíðar og efli hæfni til að velta fyrir sér eigin viðhorfi til menningar og lista út frá persónulegri tilfinningu og áhugasviði byggt á reynslu og upplifun hvers og eins.

Foldaskóli – Bekkjarhagkerfið, fjármálafræðsla og umbunarkerfi fyrir 5. bekk
Bekkjarhagkerfið tengist menntastefnu Reykjavíkur þar sem verkefnið styður við fjármálalæsi, ábyrgð og sjálfbærni sem allt eru mikilvægir þættir í undirbúningi nemenda fyrir lífið. Með því að tengja stærðfræði og lífsleikni við raunaðstæður hvetur kerfið nemendur til ábyrgðar í fjármálum og hegðun. Verkefnið eflir líka félagsfærni með umbunarkerfi sem tengist vellíðan og jákvæðri skólamenningu. Nemendur fá mánaðarleg laun fyrir ýmis verkefni en þurfa líka að greiða hefðbundinn rekstrarkostnað einstaklinga eins og leigu og rafmagn, ásamt því að festa kaup á persónulegum munum sem þarf til náms eins og borði og tölvu. Hægt er að vinna sér inn aukatekjur með góðri hegðun, heimalestri og fleiru og greiða þarf sekt fyrir ókurteisi og aðra hegðun sem fellur ekki að hagkerfinu. Að auki styrkir samvinna vegna verkefnisins tengsl heimilis og skóla í anda stefnunnar um heildstæðan stuðning við börn.
Hvetur til reglusemi í fjármálum
Í umsögn dómnefndar segir: „Um er að ræða verkefni sem kennir börnum að skipuleggja persónuleg fjármál sín og skilja tengslin milli tekna, útgjalda og sparnaðar. Verkefnið hvetur nemendur til reglusemi í fjármálum og góðra samskipta. Verkefnið ýtir undir hugsun og skilning nemenda um mikilvæga þætti í daglegu lífi fólks og hvetur þau til ábyrgðar í samskiptum við aðra. Verkefnið er góður grunnur að fjármálalæsi nemenda til framtíðar og að auki eflir þátttaka í verkefninu jákvæð tengsl milli nemenda, kennara, skóla og heimilis.“

Melaskóli - Ísland áður fyrr
Ísland áður fyrr er viðamikið verkefni sem unnið er í 4. bekk og hefur þróast í Melaskóla í gegnum árin og er eitt af þeim verkefnum sem stendur upp úr hjá nemendum, aðstandendum og kennurum skólans. Markmið verkefnisins er að nemendur kynnist lífi íslensku þjóðarinnar fyrr á tímum. Nemendur læra um náttúrulegar aðstæður landsins, árstíðir, veður og einangrun frá öðrum þjóðum, vinnu og venjum þjóðarinnar allt frá landnámi til seinni hluta 19. aldar. Verkefnið dregur upp mynd af daglegu lífi fullorðinna og barna á Íslandi áður fyrr. Mikil samþætting er milli námsgreina meðan á verkefninu stendur og fléttast allar list- og verkgreinar inn í verkefnið með skapandi hætti. Í gegnum allt ferlið skrifa nemendur handrit að leikriti og lýkur því með leiksýningu.
Fjallar um flest sem viðkemur mannlífi á Íslandi
Í umsögn dómnefndar segir: „Horft var til þess að Ísland áður fyrr er verkefni sem hefur þróast í áranna rás innan Melaskóla. Verkefninu hefur vaxið fiskur um hrygg og skipar það verðskuldaðan fastan sess í skólastarfinu ár hvert. Verkefnið er mjög fjölbreytt og spannar flest sem viðkemur mannlífinu á Íslandi frá hinu smæsta til hins stærsta í gegnum aldirnar, og fléttast list- og verkgreinar inn í framkvæmd þess. Í lokin verður til leikrit sem er alfarið sköpun nemenda sem er byggð á reynslu þeirra, upplifun og áhuga sem kviknar út frá þátttöku í verkefninu.“

Vogaskóli og félagsmiðstöðin Buskinn - Lýðræðisdagur
Verkefnið fær viðurkenningu sem samstarfsverkefni en það var unnið í tengslum við alþingiskosningarnar 30. nóvember 2024. Nemendahópur í unglingadeild Vogaskóla skipulagði framboðsfund þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem buðu fram í Reykjavík norður, kjördæmi skólahverfisins, komu í skólann og sátu fyrir svörum. Nemendur nutu aðstoðar samfélagsgreinakennara Vogaskóla og starfsmanns í félagsmiðstöðinni Buskanum við undirbúning og framkvæmd fundarins.
Nemendur höfðu samband við fulltrúa flokkanna, undirbjuggu spurningar til frambjóðenda, stýrðu fundinum og óundirbúnum spurningum gesta í sal. Nemendur og gestir fundarins voru mjög ánægð með verkefnið og sögðust hafa lært mikið um lýðræði, stjórnmál og mikilvægi þess að hver einstaklingur taki virkan þátt í samfélaginu.
Ýtir undir virka þátttöku nemenda í samfélaginu
Í umsögn dómnefndar um verkefnið segir að um framúrskarandi samstarfsverkefni nemenda í Vogaskóla, samfélagsgreinakennara og starfsmanns félagsmiðstöðvarinnar Buskans sé að ræða. Dómnefnd fannst til eftirbreytni að nemendur, skólinn og félagsmiðstöð tóku höndum saman til að verkefnið yrði að veruleika út frá hugmyndum, áherslum, og framkvæmd nemenda. Til þess var litið að verkefnið ýtir undir virka þátttöku ungra nemenda í samfélagslegu málefni sem kosningar eru sannarlega, lýðræðishugsun þeirra og gagnrýna hugsun um samfélagslega mikilvæg mál.

Verðlaun eftir Sigrúnu Huld
Að þessu sinni hlutu verðlaunahafar myndverk eftir Sigrúnu Huld Hrafnsdóttur en hún hefur meðal annars verið valin listamanneskja Listar án landamæra og haldið fjölmargar sýningar.