Lýðræði, gleði og samheldni einkenna frístundaheimilin Frostheima og Selið

Skóli og frístund

Mynd tekin á Stofnun ársins hjá Sameyki.

Í nýlegri könnun Sameykis komust frístundaheimilin Frostheimar og Selið á topp fimm lista yfir fyrirmyndarstarfsstaði borgarinnar í flokknum litlir starfsstaðir. Starfsfólk beggja frístundaheimila telur að árangurinn megi rekja til samvinnu og stuðnings sem ríkir á vinnustaðnum. Skrifstofustjóri frístundastarfs hjá Reykjavíkurborg færði starfsfólki blóm í tilefni árangursins.

Lýðræðisleg vinnubrögð og sveigjanleiki

Selið í Melaskóla er þekkt fyrir lýðræðisleg vinnubrögð þar sem starfsfólk fær tækifæri til að hafa rödd í dagskipulagi og ábendingum um það sem hægt er að bæta. Vikulegir vinnufundir eru haldnir til að stilla saman strengi. Mikil áhersla er lögð á að skapa gott andrúmsloft á vinnustaðnum, sem er lykilatriði í vinnu með börnum. Sveigjanleiki stjórnendateymisins skilar sér í miklu trausti og almennri ánægju meðal starfsfólks. Starfsmannahópurinn er einstaklega samheldinn og þakklátur fyrir frábæra samvinnu.

Mynd af starfsfólki í frístundaheimilinu Selinu.

Hjálpast að og styðja hvort annað

Frostheimar leggja mikið upp úr því að starfsfólk leggist allt á eitt við að skapa góðan starfsanda. Starfsfólk hjálpast að við dagleg verkefni og upplifir mikinn stuðning hvert frá öðru. Stjórnendur eru aðgengilegir, hjálplegir og sanngjarnir. Gleðin er við völd í samskiptum við börnin og starfsfólkið, og starfsfólk skemmtir sér vel saman, bæði innan vinnustaðarins og utan. Starfsfólki er gefinn kostur á að nýta styrkleika sína og hæfileika í vinnunni, sem stuðlar að vellíðan í vinnunni.

Mynd af starfsfólki í frístundaheimilinu Frostheimum.