Ljósvistarstefna Reykjavíkur til samþykktar

Borgarlýsing er samheiti yfir alla útilýsingu í borgarumhverfi, þar á meðal götu- og stígalýsingu, lýsingu á opnum svæðum, skólalóðum, íþróttasvæðum, bílastæðum, kennileitum, listaverkum og í undirgöngum, sem og flóðlýsingu á mannvirki. Mynd/Róbert Reynisson
upplýst listaverk á Tollhúsinu

Í Ljósvistarstefnu Reykjavíkur er mótuð skýr stefna og markmið um borgarlýsingu sem bætir lífsgæði og öryggi, verndar myrkurgæði, minnkar ljósmengun og dregur fram sérkenni borgarinnar með aðgerðaráætlun sem tryggir markvissa innleiðingu. Stefnan mótar jafnframt hönnun og framkvæmd lýsingar í borgarrýminu. Ljósvistarstefna Reykjavíkur til ársins 2030 ásamt aðgerðaráætlun var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar á fundi þess miðvikudaginn 19. nóvember og var henni vísað áfram til borgarráðs og verður hún síðan tekin fyrir í borgarstjórn.

Borgarlýsing er samheiti yfir alla útilýsingu í borgarumhverfi, þar á meðal götu- og stígalýsingu, lýsingu á opnum svæðum, skólalóðum, íþróttasvæðum, bílastæðum, kennileitum, listaverkum og í undirgöngum, sem og flóðlýsingu á mannvirki.

Aðgerðaráætlun fylgir stefnunni

Ljósvistarstefna Reykjavíkur verður innleidd af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar í samvinnu við fagaðila. Stefnan og leiðbeiningar gilda í allri hönnun og framkvæmd. Aðgerðaáætlun með tímasetningum, mælikvörðum og ábyrgðarskiptingu fylgir stefnunni. Forgangsröðun verður endurskoðuð árlega, árangur metinn reglulega, og heildarendurskoðun mun fara fram á fimm ára fresti til að tryggja að stefnan sé í takt við samfélagsþarfir, tækniframfarir og sjálfbærnimarkmið borgarinnar.

Ljósvistarstefnan er afrakstur vinnu stýrihóps sem byggði á þverfaglegri nálgun með aðkomu fagaðila á sviði lýsingarmála í samstarfi við Reykjavíkurborg. Stýrihóp um Ljósvistarstefnu skipuðu Líf Magneudóttir, sem var formaður, Ólafur Kr. Guðmundson og Pawel Bartoszek.

Varðar veginn fyrir nútímavædda lýsingu

„Ljósvistarstefna Reykjavíkurborgar, sem lítur nú loksins dagsins ljós, er yfirgripsmikil og mikilvæg stefna sem nær utan um fjölmörg verkefni sem snerta borgarbúa með beinum hætti. Um leið og hún varðar veginn fyrir nútímavædda og fjölbreytta lýsingu í Reykjavík, varðveislu myrkurgæða og til að sporna við ljósmengun þá tekur hún einnig mið af mörgum lykilstefnum borgarinnar sem allar miða að því að auka lífsgæði okkar,“ segir Líf í formála stefnunnar.

Stefnan er ætluð þeim sem skipuleggja, hanna, framkvæma og viðhalda borgarlýsingu, auk borgarbúa, gesta, fyrirtækja og menningarstofnana sem nýta og upplifa hana.

Ferlið á bak við stefnuna

Töluverð vinna liggur að baki stefnunni og hefur hún verið nokkurn tíma í ferli og þróun. Drög voru kynnt fyrir íbúaráðum borgarinnar og voru þau sett í samráðsgátt Reykjavíkur haustið 2024. Alls bárust fimm umsagnir frá íbúaráðum og einnig sendi Arkitektafélag Íslands inn álit. Enn fremur var haldin vinnustofa með 35 hagaðilum þar sem fram komu fjölbreyttar og gagnlegar ábendingar sem voru teknar inn í vinnuna í framhaldinu.

Fjögur stærri markmið

  • Að Reykjavík sé borg fyrir fólk - Borgarlýsing stuðli að öryggi, aðgengi og heilbrigði.
  • Að Reykjavík sé lífleg og skapandi borg - Borgarlýsing dragi fram menningarlega sérstöðu Reykjavíkur og skapi félagslega samheldni.
  • Að Reykjavík sé græn og sjálfbær borg - Borgarlýsing verði mikilvægur þáttur í grænum áherslum borgarinnar.
  • Að Reykjavík stuðli að gæðum í hinu byggða umhverfi – Nýsköpun og tækni verði nýtt til að bæta gæði borgarlýsingar.

Framtíðarsýnin

Framtíðarsýnin með ljósvistarstefnunni er meðal annars að lýsingin skapi öryggi og aðgengi, hlýlegt borgarrýmiog styðji við vellíðan íbúa og gesta. Borgarlýsing sé jafnframt staðbundin og endurspeglar sérkenni hverfa, menningu og náttúru borgarinnar, þannig að hvert svæði njóti sín með sínum sérkennum. 

Myrkurgæði eru einnig hluti af gæðum næturrýmis og tryggja á að stjörnusýn og upplifun í myrkri fái að njóta sín. Á sama tíma verður lýsingin byggð á orkunýtni og vistvænum nálgunum, þar sem snjallar lausnir auka öryggi, gæði og hagkvæmni. Markmiðið er að Reykjavík verði alþjóðleg fyrirmynd í sjálfbærri og samfélagslegaábyrgri borgarlýsingu.