Ljósin tendruð á Oslóartrénu í Reykjavík
Fjölmargir lögðu leið sína á Austurvöll þennan fyrsta sunnudag í aðventu þegar ljósin á Oslóartrénu voru tendruð við hátíðlega athöfn. Mikil stemning skapaðist þegar Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri leiddi niðurtalninguna í tendrun ljósanna 6800 sem prýða um 12 metra hátt sitkagrenitréð úr Heiðmörk.
Fólk lét ekki smá kulda aftra sér frá því að taka þátt þetta árið, enda er hátíðin ómissandi hluti af jólahátíðinni fyrir marga Reykvíkinga. Lúðrasveit Reykjavíkur setti tóninn og kom öllum í jólaskap, og Unnsteinn Manúel og Salka Sól sungu nokkur vel valin jólalög. Hljómsveitina skipuðu Örn Ýmir Arason, bassi, Þorvaldur Þór Þorvaldsson trommur, Örn Eldjárn gítar og Tómas Jónsson á hljómborð. Bjúgnakrækir og Askasleikir skelltu sér í borgina í tilefni dagsins og skemmtu stórum sem smáum með fyndnu bulli og glensi. Þá komumst við að því að tröllum verður ekki kalt á tánum þegar JólaTufti mætti berfættur og kátur og heilsaði upp á fólkið. Katla Margrét Þorgeirsdóttir var kynnir hátíðarinnar eins og undanfarin ár, og öll dagskráin var túlkuð á táknmáli af Agnesi Steinu Óskarsdóttur og Guðrúnu Heiðu Guðmundsdóttur
Tákn um mikla vináttu Oslóar og Reykjavíkur
Þetta er í sjötugasta og fjórða sinn sem Oslóartré er reist við Austurvöll. Í marga áratugi gaf Oslóarborg Reykvíkingum norskt jólatré, en þó að nú sé tréð höggvið í Heiðmörk breytir það engu um vináttu borganna og Norðmenn taka virkan þátt í athöfninni. Sirin Stav borgarfulltrúi Oslóar ávarpaði gesti og afhenti Reykvíkingum þýddar bækur úr norsku sem verða til útláns í öllum skólabókasöfnum borgarinnar. Johann Anda, norsk-íslenskur ellefu ára gamall drengur fékk þann heiður að tendra ljósin á jólatrénu ásamt borgarstjóra.