Leyfum grasflötunum að blómstra

Svæðin sem valin verða í þetta verkefni má kalla viljandi villt. Á meðfylgjandi mynd fær hvítsmárinn að njóta sín en hann er ekki bara fallegur heldur ilmar líka dásamlega.
Hjólastígur og grasflöt með hvítsmára.

Dregið verður úr slætti á völdum svæðum í borginni í sumar í þeim tilgangi að leyfa grasflötunum að blómstra. Þetta er gert til þess að auka líffræðilega fjölbreytni og gera svæðin sjálfbærari en nú er. 

Áhersla verður lögð á að halda áfram að slá svæði sem liggja upp að lóðum íbúa og meðfram stígum og götum. Einnig verður skrúðgörðum og mikið notuðum svæðum inni í hverfunum sinnt vel.

Viljandi villt

Svæðin sem valin verða í þetta verkefni má kalla viljandi villt. Þetta eru til að mynda jaðarsvæði meðfram stærri umferðaræðum. Það eru oft svæði með fábreytt lífríki en þau verða með þessum breytingum möguleg búsvæði fyrir fugla og aðrar lífverur. 

Hugsunin er líka að tengja við og stækka svæði sem þegar hafa náttúrulegt yfirbragð. Valin svæði verða merkt með skilti með upplýsingum um að viðkomandi svæði sé viljandi villt.

Þessi svæði meðfram umferðaræðum eru oft svæði með fábreytt lífríki þar sem miklir möguleikar eru í því að ýta undir líffræðilega fjölbreytni og gera svæðin sjálfbærari en nú er. Hægt er að beita mismunandi aðferðum, einfaldlega hætta að slá en líka planta stökum trjám eða trjálundum, sá fjölærum jurtum og planta laukum til að undirstrika breytinguna.

Sinnt með öðrum hætti

Svæðið þar sem nú þegar er búið að planta trjám í gras eru heppileg í að verða viljandi villt þar sem hætta er á því að þau geti orðið fyrir sláttutækjum. Á þeim mætti bæta við fleiri trjám og runnum og getur þetta því líka verið liður í því að fjölga trjám.

Annars staðar er vandamál að grasvöxtur er lítill og jafnvel moldarflag, ekki síst á bröttum svæðum. Þar mætti sá eða planta fjölærum plöntum, fræblöndu eða til dæmis hvítsmára eða roðafífli.

Þó að svæði verði skilgreind sem viljandi villt þýðir það ekki að þeim verði ekki sinnt, heldur verður það gert með öðrum hætti en áður. Búast má við því að sumstaðar verði slegið að minnsta kosti einu sinni á ári, í lok sumars, til að forðast sinu. Í sumar verða svæði við Rafstöðvarveg og Sævarhöfða auk svæða víðar í borginni slegin einu sinni í stað hefðbundinna þriggja skipta.

Í tölum

  • Sumarið 2025 eru slegnir 456,9 hektarar.
  • Sláttusvæði eru 10.842 talsins.
  • Stærsti hluti þeirra er á borgarlandi (76%).
  • Önnur eru við þjóðvegi í þéttbýli (24%).

Reglulega verða breytingar á sláttukortum, svo sem vegna nýrra stíga eða annarra mannvirkja.

Vel þekkt aðferð

Þessar aðferðir eru vel þekktar, til dæmis í Svíþjóð og líka í Danmörku þar sem viðamikið verkefni undir nafninu „Vild með vilje“ er rekið um land allt. Hér á landi hefur þetta til að mynda verið gert í Múlaþingi. Í Bretlandi hefur síðustu ár verið mikil áhersla lögð á að leyfa blómunum að blómstra í stað þess að slá, ekki síst á grasræmum meðfram vegum og á umferðareyjum.

Markmiðið er að gleðja lífríkið og augað en einnig er sparnaður í því að endurhugsa svæði og hætta að slá þar sem það er ekki nauðsynlegt.