Leikskólabörn í Ösp vinna með samkennd og vináttu
Í tilefni af Degi mannréttinda barna 20.nóvember 2025 komu öll börn, kennarar og Blær bangsi saman í sal í leikskólanum Ösp. Blær er táknmynd Vináttu sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti og hefur mikið verið unnið með hann í Ösp síðustu vikurnar.
Verkefnið byggir á áherslum í Barnasáttmálanum
Vináttuverkefnið með Blæ bangsa stuðlar að áherslum sem koma fram í Barnasáttmálanum, sérstaklega þær greinar sem fjalla um rétt barna til verndar gegn ofbeldi og rétt til félagslegra samskipta og vináttu. Með verkefninu er lögð áhersla á að skapa öruggt og umhyggjusamt umhverfi þar sem börn njóta réttinda sinna. Síðustu daga hafa börnin verið að útbúa lítil „hús“ fyrir sinn Blæ sem hefur verið mjög skemmtilegt.
„Þegar börnin hittust í salnum var hvert og eitt með sinn litla Blæ. Saman sungum við vinalögin okkar og ræddu saman um hvernig við getum boðið öðrum að vera með í leik og hvernig við spyrjum aðra hvort við megum vera með. Í lokin hlustuðum við á uppáhaldslög Blæs og sungum með þar sem gleði og samvera voru í fyrirrúmi,“ segir Halldóra Sigtryggsdóttir leikskólastjóri.
Mikilvægt að réttindi barna séu virt
Dagurinn minnti á mikilvægi þess að virða réttindi allra barna og skapa umhverfi þar sem vinátta og samkennd blómstrar. Mikilvægt er að hlusta á börn, gefa þeim tækifæri til að eiga rödd og bera virðingu fyrir þeirra skoðunum. „Það hefur verið sérstaklega gaman að upplifa hversu vel börnin hafa tekið móti Blæ og hversu áhugasöm þau eru um allt sem tengist honum.“
Halldóra segir að með Blæ í för verði haldið áfram að efla vináttu, virðingu og umhyggju því öll eigi rétt á að vera hluti af hópnum.