Krummaverkefni, bragðlaukaþjálfun og hamingjuverkefni hlutu Hvatningarverðlaun leikskóla í ár

Skóli og frístund

Hvatningarverðlaun veitt í Klettaborg.

Þrír leikskólar hafa hlotið Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs 2025. Til stóð að tilkynna um verðlaunin á ráðstefnu fyrir starfsfólk leikskóla Reykjavíkur sem halda átti í dag á Degi leikskólans en þurfti að aflýsa vegna rauðrar viðvörunar. Leikskólarnir eru Brekkuborg fyrir Krummaverkefnið sem fjallar um hrafnafjölskyldu sem býr á leikskólalóðinni, Klettaborg fyrir verkefnið Litlir laukar sem farið var í til að vinna með matvendni og Álftaborg fyrir Hamingjuverkefnið sem ætlað er að auka hamingju starfsfólks og barna. Þá hlutu fjórir leikskólar, Gullborg, Grandaborg, Laugasól og Ægisborg viðurkenningu fyrir samstarfsverkefnið, Leikur nám og gleði.

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur efnir til hvatningarverðlauna fyrir leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarf á vegum borgarinnar ár hvert. Þetta mun vera í sautjánda skipti sem afhending verðlauna fyrir leikskólastarf fer fram.

Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla skólastarfi sem fram fer í leikskólum borgarinnar.

Verðlaunin eiga að veita starfsfólki jákvæða hvatningu, viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru rós í hnappagat starfsins sem þau hlýtur, þau eru viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu barna og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.

Krummaverkefnið – Brekkuborg

Í apríl 2024 settust tveir hrafnar að á lóð Brekkuborgar – þau Hrafnkell og Hrafntinna og bjuggu sér til laup í einu grenitrénu á skólalóðinni. Sambúð fugla og manna gekk mjög vel og fór af stað heilmikið krummaverkefni hjá börnunum. Börnin lærðu allt um hreiðurgerð, eiginleika fuglanna og afkvæma þeirra ásamt því að fylgjast með hreiðrinu á leikskólalóðinni. Tveir ungar komust á legg og nú verður gaman að vita hvort parið komi aftur til að verpa í vor.

Í umsögn dómnefndar sagði að verkefnið væri frábært dæmi um hvernig hægt er að búa til spennandi og áhugavert verkefni fyrir börn, starfsfólk og foreldra, frekar óvænt. Í leikskólanum Brekkuborg er lögð áhersla á samspil manns og náttúru, samskipti við nærsamfélag, útikennslu og virðingu fyrir náttúrunni. Þetta verkefni sýnir svo sannarlega að leikskólinn er trúr stefnu sinni.

Umsjón með verkefninu hafði Kristín Auður Harðardóttir aðstoðarleikskólastjóri ásamt starfsfólki leikskólans.

Hvatningarverðlaun veitt í Brekkuborg.

Litlir laukar, bragðlaukaþjálfun – Klettaborg

Verkefnið hófst samhliða rannsókn á matvendni hjá 0-6 ára börnum og fæðumiðaðri íhlutun í leikskólum. Því var hrundið af stað til að sporna við matvendi barna og gefa þeim tækifæri til að kynnast mat á uppbyggjandi og skemmtilegan hátt. Gott samband við hollan mat nýtist alla ævi. Verkefnið var bæði skemmtilegt og lærdómsríkt og vakti áhuga bæði kennara, foreldra og barna. Það hvatti öll til að velta fyrir sér matarvali og nálgast mat af yfirvegun á sama tíma og við breyttum hollri matarkönnun í skemmtilega upplifun fyrir börnin. Á sama tíma fengust mikilvæg gögn til rannsókna. Verkefnið krafðist umtalsverðs átaks af kennurum sem tóku vel í samstarf og lögðu sig fram.

Í umsögn dómnefndar segir að fyrstu æviár barna skipti sköpum fyrir framtíðarheilbrigði og þroska, þar sem fjölbreytt og hollt mataræði er grundvallaratriði. Meðal hindrana fyrir aukinni fjölbreytni í fæðuvali barna er erfið matarhegðun, svo sem matvendni, sem er algeng hjá ungum börnum. Langtímarannsóknir á vaxtarferlum barna með matvendni skortir og enn fremur hvort fæðumiðaðar íhlutanir geti haft áhrif á fæðuvenjur, matvendni og vaxtarferla til lengri tíma litið. Það er til fyrirmyndar að leikskólinn Klettaborg taki þátt í verkefni sem þessu.

Hvatningarverðlaun veitt í Klettaborg.

 

Hamingjuverkefnið, hamingja barna og starfsfólks - Álftaborg

Markmið verkefnisins er að stuðla að hamingju og vellíðan barna og starfsfólks. Velt er upp hugtakinu hamingja, hvað það felur í sér, hvað gerir okkur hamingjusöm og hvaða tilfinningar fylgja. Haldið er upp á alþjóðlega hamingjudaginn ár hvert með pompi og prakt þar sem slegið er upp veislu og hamingjunni fagnað. Lögð er rík áhersla á góð og virðingarfull samskipti meðal barna og starfsfólks þar sem heilbrigð samskipti eru mikilvægur þáttur í að stuðla að góðu starfsumhverfi. 

Þegar gengið er inn í leikskólann má finna fyrir starfsánægju starfsfólksins en hún birtist einna helst í gegnum starf þeirra með börnunum. Stjórnendur skólans hafa áttað sig á því að hamingja og vellíðan starfsfólks skilar sér margfalt inn í starfið með börnunum því mikið lagt upp úr að starfsfólki líði vel í skólanum.

Í umsögn dómnefndar segir að verkefnið falli sannarlega að þeim markmiðum sem leikskólinn hefur sett sér. Þar er stöðugur og frábær hópur starfsmanna sem býr yfir miklum mannauði, innri áhuga og fagmennsku sem litað er með gleði og umhyggju. Kennarar og annað starfsfólk er fyrirmynd barnanna og læra börnin af þeim m.a. að sýna virðingu og setja mörk. Gleði er mikilvægur þáttur í að gera umhverfið gott þannig er stuðlað að vellíðan allra í leikskólanum.

Umsjón verkefnisins hefur verið í höndum Önnu Hjördísar Ágústsdóttur leikskólastjóra.

Hvatningarverðlaun veitt í Áftaborg.

Leikur, nám og gleði - Gullborg, Grandaborg, Laugasól og Ægisborg

Verkefnið lýsir frábærri samvinnu á milli leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og leikskóla í Stokkhólmi. Vinátta, gleði og nám eru í fyrirrúmi í þessu verkefni og mikið er lagt upp úr því að börnin leiki sér og læri í leiðinni. Þau eflast í sjálfbærni og félagsfærni, sem er mjög mikilvægur þáttur þegar börn hafa lokið leikskólagöngu sinni, að vera félagsfær. Hvað það er að vera vinur og kunna að eiga vini.

Kennarar hafa stigið úr fyrir þægindarammann, skoðað hlutverk sitt í sjálfsprottnum leik og tekið þátt í leik barna á fjölbreyttan hátt. Í gegnum þátttökuna hafa kennarar sérstaklega skoðað hugtakið félagsleg sjálfbærni og hvernig félagsleg sjálfbærni birtist í leik barna og hver áhrif kennara eru á leik barna. Verkefnið hefur skapað lærdómssamfélag meðal þátttakenda og skapað vettvang fyrir kennara til að rýna í eigin starfshætti, prófa sig áfram í nýjum aðstæðum og átt dýrmætar ígrundanir sem hópur.

Umsjón með verkefninu hefur verið á hendi Kristínar Hildar Ólafsdóttur á skóla- og frístundasviði og Önnu Magneu Hreinsdóttur hjá Háskóla Íslands og Lilju Jónsdóttur í Ægisborg.

Viðurkenning veitt fyrir samstarfsverkefni.