Korda Samfónía - Tónlist til betra lífs og farsælla samfélags

Korda Samfónía er óhefðbundnasta hljómsveit landsins þar sem saman koma 40 einstaklingar á aldrinum 20-70+ ára sem eru á ólíkum stöðum í lífinu og með ólíkar sögur að baki. Tilgangurinn með hljómsveitinni er að fólk fái tækifæri til að vinna saman að sköpun nýrrar tónlistar.
Meðlimir Kordu Samfóníu koma úr hinum ýmsu áttum þjóðfélagsins. Þar er að finna sprenglært og þaulreynt starfandi tónlistarfólk sem, nemendur úr Listaháskóla Íslands, sjálfmenntað tónlistarfólk og fólk sem hefur aldrei áður lagt stund á tónlist en einnig fólk sem orðið hefur fyrir áföllum og er mislangt komið í endurhæfingarferli sem stutt er af starfsendurhæfingarstöðvum um allt land. Allar raddir eru jafnréttháar og útkoman er stórkostleg!
Hvers vegna Korda Samfónía?
Verkefnið miðar að því að gefa fólki einstakt, opið og aðgengilegt umhverfi til tónsköpunar, fyrir tónlistarnemendur á háskólastigi og fólk sem er að byggja líf sitt upp á ný eftir ýmiskonar áföll. Þannig fá meðlimir tækifæri tækifæri til að vegna vel í lífinu og til að fá að upplifa sig sem gjaldgenga og virka meðlimi samfélagsins sem hlustað er á.
Korda einkennist af jafnrétti, vingjarnlegu, stuðningsríku og skapandi andrúmslofti þar sem fólk vinnur saman, skapar, lærir, styrkist og vex. Umhverfið er öruggt og fólk er hvatt til þess að taka áhættu, prófa eitthvað nýtt og víkka þægindarammann.
Mikill metnaður er lagður í listrænt gildi tónlistarinnar, sem gerir þátttakendum kleift að vera stoltir yfir því sem þeir áorkuðu og vita að þeirra list eigi erindi til áhorfenda.
Tónleikar í Silfurbergi
Korda Samfónía verður með tónleika í Silfurbergi þann 26. maí og verða fluttar glænýjar tónsmíðar, auk laga frá fyrri starfsárum hljómsveitarinnar. Korda Samfónía flytur eingöngu frumsamda tónlist en sú tónlist er öll samin af meðlimum hljómsveitarinnar í sameiningu og strangar reglur eru um að enginn komi með neitt sem áður hefur verið undirbúið. Þegar litið er til þess að hljómsveitin er skipuð 35 manns verður það að teljast mjög sérstakt. Að auki hittist hljómsveitin eingöngu í 11 daga ár hvert. Á fyrstu 10 dögunum verður tónlistin til og á þeim ellefta eru haldnir tónleikar.
Verkefnið er runnið undan rifjum MetamorPhonics, samfélagsmiðuðu fyrirtæki sem Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, tónlistarkona stýrir í London. En auk starfsendurhæfingarstöðva og Listaháskóla Íslands kemur Tónlistarborgin Reykjavík og Harpa að verkefninu.