Jólaborgin komin í hátíðarbúning
Reykjavík er komin í sparifötin, en hana prýða nú yfir 500 þúsund ljósaperur og 50 kílómetrar af jólaseríum. Fjölbreytt dagskrá verður í boði í jólaborginni á aðventunni.
Jólaborgin býður upp á dagskrá í miðborginni, á söfnum, í Elliðaárdalnum, Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og víðar alla aðventuna og ættu öll að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera.
Tónlist, jólasveinar og annað fjör alla aðventuna
Jólakötturinn er á sínum stað og nú hafa Grýla og Leppalúði bæst í hópinn í gróðurhúsinu við Lækjartorg. Oslóartréð á Austurvelli er komið á Austurvöll í allri sinni dýrð og alltaf bætist eitthvað nýtt í jólaborgina og er fólk hvatt til að gera sér glaðan dag í borginni á aðventunni.
26 styrkjum var úthlutað úr viðburðapotti jólaborgarinnar til listafólks sem mun skemmta gestum og gangandi í miðborginni. Kórsöngur, harmonikkutónlist, jólaseiður og lúðrablástur mun heyrast um miðborgina og sjá til þess að halda uppi jólastemningunni í jólaborginni.
Jólasveinarnir verða á vappi og tröllið Tufti ásamt fjölskyldu munu bregða á leik allar helgar fram að jólum. Boðið verður upp á flesta viðburði um helgar og svo síðustu dagana fyrir jól. Allt ókeypis.
Jólamarkaður við Austurvöll
Austurvöllur er í hjarta jólaborgarinnar og hefur aldrei verið fallegri. Um 10 kílómetrar af ljósaseríum prýða nú gróðurinn við torgið og fallegu ljósagöngin eru komin á sinn stað. Jólakransinn er á sínum stað en hann var mjög vinsæll í fyrra enda tilvalið að taka hátíðlegar myndir.
Jólamarkaðurinn við Austurvöll, opnaði laugardaginn 29. nóvember og hefur stækkað frá því í fyrra. Fleiri söluaðilar hafa bæst í hópinn og munu bjóða upp á fjölbreytt úrval af smávöru og spennandi jólavörum. Markaðurinn verður opinn allar helgar í desember og dagana 18. - 23. desember. Öll velkomin!
Jólavættaleikur
Jólavættaleikurinn hefst 5. desember og verða þá allar jólavættirnar búnar að koma sér fyrir á húsveggjum víðs vegar um miðborgina.
Leikurinn hefur notið vinsælda meðal gesta borgarinnar sem skemmta sér við að þræða götur og torg í leitinni að jólavættunum. Leikurinn stendur til 19. desember og verða vegleg verðlaun dregin út úr innsendum réttum svörum.
Jólaskógur
Jökull Jónsson upplifunarhönnuður mun umbreyta Tjarnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur í ævintýralegan jólaskóg.
Þar verður auðvelt að komast í jólaskap enda grenilyktin allsráðandi í skrautlegu jólaumhverfi. Jólaskógurinn opnar formlega 3. desember og verður opinn virka daga frá klukkan 8-18, á laugardögum frá klukkan 10–18 og á sunnudögum frá 12–18. Öll velkomin.
Jólasmiðja í Listasafni Reykjavíkur
Í listasafni Reykjavíkur verður börnum boðið í opna jólaföndursmiðju í Hafnarhúsinu alla daga á opnunartíma safnsins. Tilvalið fyrir börn og fjölskyldur að líta við á safnið og eiga rólegheitastund í aðdraganda jóla. Í Fjölnotasalnum verða jólavættir sýnilegar og þar verður hægt að sjá allar vættir Reykjavíkurborgar á einum stað. Leikum að list er yfirskrift fjölskyldudagskrár Listasafns Reykjavíkur sunnudaginn 1. desember klukkan 13:00 – 15:00.
Í Ásmundarsafni verður boðið upp á teikniæfingu með Söru Riel. Á æfingunni leiðir Sara gesti inn í ferli sjálfvirkra teikninga. Sara veitir gestum létt fyrirmæli og leiðbeiningar og varpar jafnframt sinni eigin teikningu upp á vegg með myndvarpa, á meðan tónlist fyllir rýmið og styður flæðið. Allt efni verður á staðnum.
Notaleg stund á Borgarbókasafninu á aðventunni
Borgarbókasafnið býður upp á fjölbreytta og glæsilega dagskrá í aðdraganda jóla. Lifandi tónlist, söngur, smiðjur, föndur, sögustundir, skiptimarkaður, jólalagakeppni og ýmislegt fleira fyrir börn og fullorðna. Verið velkomin inn í hlýjuna og huggulegheitin á bókasafninu.
Líkt og ávallt er ókeypis á alla viðburði.
Jólakötturinn, jólagjafir hjá dýrunum í jóladalnum
Fjölskyldu- og húsdýragarðinum hefur verið breytt í sannkallaðan Jóladal enda skreyttur hundruðum þúsunda jólaljósa og fólk og dýr óðum að komast í mikið jólaskap.
Kerti og eldar munu loga víða um garð síðdegis um helgar og gestum verður boðið í hringekjuna frá kl. 16 til 20. Dagskrá í kringum dýrin verður með jólablæ og eflaust kærkomið hjá mörgum að hvíla sig á amstri jólaundirbúningsins í kringum dýrin. Jólakötturinn verður á vappi um garðinn og verður til vandræða fyrir dýr og fólk.
Stilltir og heilsuhraustir hundar, skráðir hjá sveitarfélagi, eru velkomnir með í heimsókn í garðinn alla miðvikudaga og til jóla verða þeir einnig velkomnir með alla sunnudaga. Þeir skulu vera í stuttum taum og á ábyrgð fullorðins.
Veitingasala Bæjarins Beztu verður opin um helgar og lofa jólastemningu þar sem mögulega verður hægt að grípa í spil og föndra eitthvað í rólegheitum.
Garðurinn verður opinn frá kl. 10 til 20 á laugardögum og sunnudögum til jóla en annars frá 10 til 17.
Milli jóla og nýárs verður opið frá kl. 10 til 17 en á aðfangadag, gamlársdag og nýársdag verður opið frá 10 til 15 og lokað á jóladag. Hefðbundinn aðgangseyrir verður allan desember.
Jólin á Árbæjarsafni
Bráðum koma blessuð jólin er yfirskrift jóladagskrár Árbæjarsafns sunnudagana 7. og 14. desember.
Þá daga gefst gestum tækifæri að njóta aðventunnar og upplifa jólin eins og þau voru í Reykjavík í þá gömlu góðu daga. Jólaundirbúningur er í fullum gangi í bænum og boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá. Í Árbæ má sjá heimafólk skera út laufabrauð, kemba ull og spinna garn. Kæsta skatan er komin í pottinn í Efstabæ og í Miðhúsum eru prentuð falleg jólakort. Í hesthúsinu í Garðastræti eru hjúin í óðaönn að steypa kerti úr tólg.
Jól í Heiðmörk
Jólamarkaðurinn í Elliðavatnsbæ sem Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til á hverju ári opnar laugardaginn 29. nóvember og er opinn allar helgarnar á aðventunni frá klukkan 12:00 til 17:00 og þar kennir ýmissa grasa.
Jólaskógurinn 2025 verður opinn frá klukkan 11:00 til 16:00, aðventuhelgarnar 6. – 7. desember, 13. – 14. desember og 20. – 21. desember. Þau sem vilja fella sitt eigið tré eru velkomin á Hólmsheiðina og hver veit nema einhverjir jólasveinar verði á ferli.
Íbúar miðborgarinnar geta svo farið og keypt sér jólatré í gróðurhúsinu á Lækjartorgi en þar verður jólatrjáasala Skógræktarfélags Reykjavíkur dagana 12. – 22. desember. Nánar um dagskrána á Heiðmörk.is
Jól í dalnum - Elliðaárstöð
Í desember umbreytist Elliðaárstöð í jólastöð. Komið í dalinn og upplifið fallegu jólaljósin, skellið ykkur í ratleikinn Leitin að jólaorkunni, fræðist á vísindasýningunni Hjartastrengir & vatnsæðar í Gestastofunni og fáið ykkur jólakræsingar á Elliða – kaffihúsinu í hjarta dalsins🎅⛄
Útisvæðið verður skreytt fallegum jólaljósum.
Skautaðu inn jólin!
Novasvellið er komið á sinn stað á Ingólfstorgi eins og fyrri ár og hefur aldrei verið glæsilegra. Það er fátt jólalegra en að skemmta sér á skautum og svo er hægt að gæða sér á heitu kakói á milli ferða. Kynnið ykkur dagskrána.
Nánari upplýsingar um viðburði á aðventunni má nálgast á jólaborgin.
Verið öll velkomin í Jólaborgina!