Jakobstad í heimsókn til Reykjavíkur
Reykjavík hefur verið pöruð við borgina Jakobstad í Finnlandi í evrópsku nýsköpunarverkefni í loftslagsmálum. Af því tilefni komu fulltrúar frá borginni í heimsókn fyrr í sumar.
Þetta kemur til vegna þess að Reykjavík hefur fengið titilinn tilraunaborg (Pilot City) en litið er til þessara borga sem fyrirmynd annarra um að hraða ferlinu að kolefnishlutleysi með ýmiss konar nýsköpun í fjölbreyttum loftslagsverkefnum. Jakobstad telst í þessu samhengi vera tvíburaborg (Twin City) Reykjavíkur og lærir af loftslagsverkefnum borgarinnar og öfugt.
Kynntu sér samgöngur og úrgangsmál
Tilangur heimsóknarinnar er ekki síst að styrkja tengslin á mili borganna og stuðla að miðlun þekkingar og auknu samstarfi. Gestirnir kynntu sér meðal annars samgöngur og úrgangsmál í Reykjavík, fóru í gönguferð um miðbæinn og höfnina, heimsóttu Ráðhús Reykjavíkur og fóru í skoðunarferð í Hellisheiðarvirkjun og fengu kynningu á starfsemi Carbfix. Leiðbeinandi frá NetZeroCities var einnig með í heimsókninni. Verkefnateymi frá Háskóla Íslands tók enn fremur virkan þátt í heimsókninni auk sérfræðinga hjá borginni.
Síðasti hluti heimsóknarinnar var vinnustofa þar sem markmiðið var að Jakobstad setti niður lista af mögulegum yfirfæranlegum verkefnum til að framkvæma í Jakobstad, byggða á reynslu Reykjavíkurborgar.
Kolefnishlutlausar og snjallar borgir
Reykjavíkurborg hefur fengið styrk til þess að vera tilraunaborg en styrkurinn var veittur til hluta þeirra borga sem voru valdar sem þátttakendur í Evrópusamstarfi um 112 kolefnishlutlausar og snjallar borgir. Styrkurinn á að styðja við markmið borganna um að flýta vegferð sinni í átt að kolefnishlutleysi fram til ársins 2030. Hjá Evrópusambandinu eru það samtökin NetZeroCities styðja sérstaklega við þetta verkefni. Verkefninu lýkur í ágúst 2026 þó samstarfið milli annarra evrópska borga haldi áfram.