Jafningjafræðsla Hins Hússins í fullum gangi!
Jafningjafræðsla Hins Hússins hóf störf í sumar og hefur gengið mjög vel. Verkefnið er hluti af forvarnarstarfi Reykjavíkurborgar og byggir á þeirri hugmynd að ungur fræði ungan. Á hverju sumri tekur við nýr jafningjafræðsluhópur og í ár er hópurinn sérstaklega flottur!
Þriggja vikna undirbúningsnámskeið
Í upphafi sumars sátu 15 ungmenni á þriggja vikna undirbúningsnámskeiði þar sem þau fengu fræðslur og fyrirlestra frá fjölbreyttum sérfræðingum og fagfólki. Meðal efnis voru geðheilbrigði, kynfræðsla, hinseginmálefni, ofbeldi, kynþáttafordómar og áhrif stríðsátaka í heiminum. Að loknu námskeiði tóku ungmennin að sér hlutverk fræðara og hófu í kjölfarið heimsóknir til unglinga víðs vegar um borgina.
Í sumar fara fræðararnir í vinnuskólahópa Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga og veita fræðslu um málefni sem snerta ungt fólk. Lögð er áhersla á að skapa öruggt rými, opna á mikilvæga umræðu og ýta undir gagnrýna hugsun, sjálfsskoðun og virka þátttöku. Allt á jafningjagrundvelli.
Hafa frætt um eitt þúsund ungmenni
Undanfarnar þrjár vikur hafa fræðararnir frætt um eitt þúsund ungmenni í 8.–10. bekk. Markmiðið er að ná til allra 9. og 10. bekkja í Vinnuskólahópum Reykjavíkur á fyrsta og öðru tímabili sumarsins þar sem starfstímabil Jafningjafræðslunnar nær ekki yfir það þriðja. Við erum á góðri leið með það.
Ásamt heimsóknum í vinnuskólahópa hefur jafningjafræðslan einnig frætt fjölmarga félagsmiðstöðvarhópa sem hafa haft samband og óskað eftir fræðslu.
Jafningjafræðslan er á fullu í að bóka fræðslur utan vinnuskólans og höfum nú þegar heimsótt hópa á Hvolsvelli, Hellu og í Vestmanneyjum. Einnig er verið að skoða fleiri leiðir til þess að ná til ungs fólks eins og í gegnum íþróttafélög og vinnustaði þar sem ungmenni eru stór hluti starfsfólks.
Götuhátíð jafningjafræðslunnar
Þann 2. júlí fór fram hin árlega Götuhátíð jafningjafræðslunnar. Á dagskrá voru tónlistaratriði, fatamarkaður og gleði fyrir öll á aldrinum 14–20 ára. Allur ágóði rann óskiptur til neyðarsöfnunar UNICEF fyrir börn á Gaza.
Á mánudag fengu fræðararnir boð á Bessastaði þar sem þeir hittu Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. Þar ræddu þau um stöðu ungs fólks í dag og þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir.
Nú halda fræðararnir áfram að heimsækja hópa með það markmið að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og jafningja sína.