Innblástur og tengslamyndun fyrir skólaárið á Uppsprettu

Uppspretta 2025

Uppspretta sem er lifandi vettvangur fyrir skóla- og frístundastarf var haldin með glæsibrag í síðustu viku. Gestir voru ánægðir með allar þær áhugaverðu kynningar sem þeir fengu beint í æð í fallegu umhverfi í Hafnarhúsi.

Tækifæri til samstarfs og samvinnu

Á dagskrá voru kynningar á fjölbreyttum viðburðum, fræðslu, vettvangsferðum og verkfærum sem tengjast m.a. menningu, listum, tækni, náttúru, sögu, tungumálum og tilraunum. Meðal þátttakenda voru Alþingi, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Þjóðminjasafn Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands, RÚV, Þjóðleikhúsið og fjöldi annarra stofnana sem leggja sitt af mörkum til menntunar og menningar í landinu.

Gestir nutu léttra veitinga og almennrar gleði í hlýlegu og hvetjandi umhverfi. Aðgangur var ókeypis og öll velkomin, sem skapaði opinn og aðgengilegan vettvang fyrir tengslamyndun og innblástur fyrir skólaárið framundan.

Uppspretta er einstakt tækifæri til að efla samstarf og samvinnu milli skóla, frístundastarfs og menningarstofnana – og virðist hún nú þegar hafa fest sig í sessi sem mikilvægur viðburður í upphafi skólaárs.