Hvað býr að baki starfsánægju í leikskólum sem skoruðu hátt?

Skóli og frístund

Mynd af þeim sem tóku við viðurkenningu frá Sameyki fyrir að skora hátt í könnuninni Stofnun ársins.

Fjórir leikskólar í Reykjavík komust á topp fimm lista yfir fyrirmyndarstarfsstaði í borginni. Það eru leikskólarnir: Rauðhóll sem var í öðru sæti í flokknum stórir starfsstaðir og Lyngheimar (1), Gullborg (2) og Álftaborg (4) í flokki meðalstórra starfsstaða. Leikskólinn Lyngheimar var valinn Stofnun ársins í sínum flokki.

Starfsfólk af leikskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs kíkti í heimsókn í leikskólana og færði starfsfólkinu köku og blóm í tilefni árangursins. Í heimsóknunum fengust líka áhugaverðar upplýsingar um það hvað gerir starfsstaðina svona góða.

Gullborg - opin og hreinskiptin samskipti

Rannveig Anna Ólafsdóttir, leikskólastjóri í Gullborg, segir starfsfólkið gera leikskólann að fyrirmyndarstofnun og því leggi hún ofuráherslu á að starfsfólkinu líði vel. „Ef starfsfólkið er ánægt þá smitar það í börnin sem skilar sér heim til foreldra. Gullborg er með frábært starfsfólk og samskiptin okkar eru opin og hreinskiptin. Hér vinna allir saman. Við vorum t.d. með starfsmannafund í haust þar sem við ræddum saman hvað mætti gera betur og hvernig við getum unnið sem best saman,“ segir Rannveig Anna sem mælir með slíkum fundi þar sem öll hafi færi á að tjá sig.

Rauðhóll - foreldrar eiga þátt í árangrinum

Leikskólastjórinn á Rauðhóli, Guðrún Sólveig, segir styrkinn felast í mannauðnum og þeirri menningu að starfsfólkið sé ávallt að læra og styrkja sig í starfi. „Lærdómssamfélagið og starfsþróun hefur gert Rauðhól að fyrirmyndarfyrirtæki. Í janúar 2007 þegar stjórnendur hittust fyrst var stefnumótunarfundur um það hvernig við ætluðum að vinna. Niðurstaðan af þessum fundi var að okkur langaði að láta leikinn vera aðalatriðið og við myndum elta hugmyndir barnanna. Verkefni dagsins yrðu hugmyndir barnsins.“

„Einnig fórum við í ytra skipulag eins og að klukkur yrðu ekki sýnilegar. Að matur færi ekki inn á deildir þar sem leikur barna væri aðalatriðið og við ætluðum ekki að trufla leikinn. Einnig var kaffitími starfsmanna tekinn í framhaldi af hvíld. Þessi stefna Rauðhóls er okkar rauði þráður í gegnum starfið okkar og við höfum tekið þátt í nokkrum þróunarverkefnum til að styrkja okkur í starfi,“ segir Guðrún Sólveig og bætir við að foreldrar hafi tekið þátt í starfinu og eigi líka stóran þátt í árangrinum. Rauðhóll hefur stækkað mikið frá árinu 2007 þegar hann opnaði. Þá var hann 88 barna leikskóli en var orðinn 216 barna leikskóli á þremur starfsstöðvum árið 2012.

Starfsfólk í leikskólanum Rauðhól tekur á móti köku og blómum.
Mynd tekin í leikskólanum Rauðhól þegar starfsfólk tók á móti köku og blómum.

Lyngheimar - hrós, endurgjöf og skýr markmið

Það sem er nefnt í samhengi við góða vinnustaðamenningu í leikskólanum Lyngheimum er að þar sé komið fram við börn, starfsfólk og foreldra af virðingu. Í húsinu sé líka góður og jákvæður andi og áhersla lögð á hlýtt og gott viðmót. Kristín Helgadóttir leikskólastjóri segir líka skipa máli að talað sé fallega um vinnustaðinn, starfsmenn, börnin og foreldra. „Starfsmenn eru þátttakendur í faglegu starfi, hafa rödd og mannauðurinn fær að njóta sín til að allir geti þroskast í starfi.“

Fleiri atriði sem voru nefnd sem ástæða árangursins:

  • Starfsmenn eru hvattir til að hafa frumkvæði.
  • Leggjum áherslu á að leikskólinn sé hlýlegur, fallegur og aðlaðandi.
  • Hrós og endurgjöf, hugsað er um starfsmenn og hag þeirra.
  • Upplýsingarflæði gott, markmiðin skýr.
  • Lítil starfsmannavelta, sterkur kjarni menntaðra kennara.
  • Stjórnendur bara virðingu fyrir starfsmönnum, tala við þá af virðingu, hugsa um hag þeirra og eru til staðar. Eru með puttann á púlsinum. Hafa mikinn metnað fyrir hönd skólans.
Starfsfólk í leikskólanum Lyngheimum tekur á móti blómum og köku.
Starfsfólk í Lyngheimum tók á móti köku og blómum og var að vonum ánægt með árangurinn.

Álftaborg - festa, gleði og húmor

Í Álftaborg voru líka ýmis atriði tínd til sem gerir leikskólann að góðum vinnustað. Anna Hjördís Ágústsdóttir leikskólastjóri segir helgun starfsmanna þar sem áhugi og fagmennska fyrir hag barnanna skipta miklu máli. Hún nefnir líka festu, gleði og húmor sem mikilvæga þætti sem og að hafa hreinskiptin samskipti og því að taka strax á málunum, fyrir því séu þau öll ábyrg. „Faðmaðu – Brostu til, treystu og sjáðu starfsmennina þína. Þá er að minnsta kosti hálfur sigur unninn.“

Fleiri þættir sem skipta máli til að stuðla að góðum anda í Álftaborg:

  • Sýna áhuga á hvort öðru, hlusta, virða, fylgja hjartanu og vinna í kærleik.
  • Trúin á sjálfan sig og hugrekkið til að trúa og treysta.
  • Hrósa og hvetja hvort annað.
  • Grunnur að öllu eru samskipti við alla hópa sem gera góðan skóla betri. Við getum reist hallir ef undirstaðan er góð og undirstaðan er samskipti.
Kaka fyrir leikskólann Álftaborg.