HönnunarMars 2025 - Uppspretta

Hátíð hönnunar og arkitektúrs verður haldin í 17. sinn dagana 2.–6. apríl undir þemanu Uppspretta og henni fylgir kynngimagnaður kraftur upphafsins, gleði og glens um alla borg.
Á HönnunarMars sameinast ólíkar greinar hönnunar og arkitektúrs í kraftmikilli og áhugaverðri hátíð sem snertir á fjölbreytilegum hliðum samfélags og atvinnulífs, allt frá fatahönnun til vöruhönnunar, arkitektúrs, grafískrar hönnunar, textílhönnunar, leirlistar, þjónustuhönnunar, stafrænnar hönnunar svo dæmi séu nefnd.
Dagskráin hefur sjaldan verið jafn glæsileg, skrýtin og skemmtileg en líka jarðbundin og mikilvæg. Hún endurspeglar fjölbreytni fagsins og sýnir vel hvernig hönnun tekur á öllum þáttum hins manngerða umhverfis með sýningum, samtölum og fjölbreyttum viðburðum. Kynntu þér dagskrá HönnunarMars.
Veislan hefst með DesignTalks deginum í Hörpu, 2. apríl þar sem einvalalið býður uppá óþrjótandi uppsprettu innblásturs og augnabliks kjörnun áður en við hefjum okkur til flugs á ný! Kynntu þér dagskrá DesignTalks.
Í opnunarpartý í Hafnarhúsinu sem fram fer síðdegis í dag tekur leikgleðin öll völd enda uppspretta sjálfrar sköpunargleðinnar! Strax í kjölfarið opna allar sýningar í miðborginni með uppákomum fram eftir kvöldi.
Eilíf uppspretta
Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður Textílfélag Íslands með sýningu. Sýningin hefur að geyma ótæmandi uppsprettu hugmynda Textílfélaga. Þar gefur að líta verk þar sem hráefni er nýtt á skapandi hátt, með áherslu á að lágmarka sóun og hámarka gæði. Tæknin er nýtt til að lágmarka umhverfisáhrif og nýta hráefnin upp á nýtt. Eilíf uppspretta sköpunarfélaga í Textílfélaginu verður sýnd í Ráðhúsi Reykjavíkur, 3-6 apríl. Á sýningunni verða fjölbreytt verk eftir 26 hönnuði og listamenn þar sem endurnýting og nýsköpun er í fyrirrúmi.
Tilraunastofa ímyndunaraflsins
Skynvitund yngstu gesta Borgarbókasafnsins fær að njóta sín í nýju og endurbættu framtíðarbókasafni Reykvíkinga. Börnin stíga inn í sköpunarheim „ljóss & skugga“ á hæð sem verður alfarið tileinkuð þeim í umbreyttu bókasafni við Tryggvagötu.
Borgarbókasafnið, Hönnunarteymi Grófarhúss og ÞYKJÓ hafa unnið saman að þróun barnadeildarinnar. Notendur bókasafnsins tóku þátt í vinnustofum og samtölum á frumstigum hönnunarferlisins og nú spyrjum við: Hverjir voru draumar notenda? Geta óskir þeirra ræst?
Á hugmyndaborði ÞYKJÓ eru meðal annars þrautabrautir, leshellar, söguskógur, skýjaborgir og krílalaut fyrir yngstu börnin.
Útilega „Frá tjaldi til þráðar: Að endurnýta hátíðarúrgang"
Nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti setja upp áhugaverða sýningu á HönnunarMars. Þar sem viðfangsefnið er umhverfisáhrif útihátíða með áherslu á textílsóun. Á hverju ári eru óteljandi tjöld skilin eftir í lok hátíða sem stuðla að sóun og umhverfisspjöllum. Þessi sýning leitast við að vekja athygli á vandamálinu með því að sýna hvernig hægt er að endurnýta þessi tjöld, oft úr vönduðum og endingargóðum efnum í eitthvað nýtt.
Verkin á sýningunni sýna á skapandi hátt umbreytingu notaðra tjalda í hagnýtan sjálfbæran fatnað og útileguvarning. Þar er lögð áhersla á möguleika þess að úrgangur sé endurnýttur í verðmætar auðlindir og gefur þannig innsýn í hvernig nýsköpun og endurvinnsla getur dregið úr umhverfisspjöllum af völdum slíkra fjöldaviðburða. Gestir munu sjá ferlið við að endurnýta efni, listina á bak við endurnýtingu textíls og breiðari boðskap um að draga úr sóun í tísku- og hátíðariðnaðinum. Að upplifa hvernig hönnun, sköpunarkraftur og sjálfbærni geta skarast og sjá af eigin raun möguleikana á að skapa úr textíl sem annars fer á haugana.
Verkefnið hlaut styrk úr loftslagssjóði ungs fólks í Reykjavík (Youth Climate Action Fund), Sorpu, Seglagerðinni Ægi og Góða Hirðinum.
Gleðilega hátíð!