Hólavallagarður friðlýstur

Hólavallagarður er með merkustu kirkjugörðum landsins og í honum endurspeglast hluti af sögu og þróun Reykjavíkur. Mynd/Róbert Reynisson
Legsteinar í grasi við tré

Hólavallagarður hefur verið friðlýstur en Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra,  staðfesti í gær friðlýsingu vegna garðsins. Friðlýsingin tekur til Hólavallagarðs í heild, veggjar umhverfis garðinn, heildarskipulags hans, klukknaports, minningarmarka og ásýndar garðsins.

Reykjavíkurborg var búin að samþykkja friðlýsinguna fyrir sitt leyti en tillaga þess efnis kom frá Minjastofnun Íslands. 

„Hólavallagarður er með merkustu kirkjugörðum landsins og í honum endurspeglast hluti af sögu og þróun Reykjavíkur. Hann er vel varðveittur og telst eitt af helstu kennileitum borgarinnar. Garðurinn er fjölsóttur áfangastaður og hefur þar af leiðandi mikið gildi sem sögulegur staður innan borgarinnar. Það er mat undirritaðra að með friðlýsingu fengi Hólavallagarður skýrari stöðu sem merkilegur minjastaður sem leitt gæti til að umgjörðin um viðhald hans og umgengni verði enn betri,“ sagði meðal annars í umsögn Reykjavíkurborgar um friðlýsinguna.

Viðstaddir friðlýsinguna voru auk ráðherra, fulltrúar Kirkjugarða Reykjavíkur, Minjastofnunar Íslands, Reykjavíkurborgar og Félags íslenskra landslagsarkitekta.

Friðlýsing mun ekki hafa áhrif á umhirðu og daglegan rekstur kirkjugarðsins og áfram verður heimilt að jarðsetja duftker og halda við leiðum í samráði við Kirkjugarða Reykjavíkur.