Hlutverkasetur hlaut hæsta styrk velferðarráðs

forsvarsfólk 23 hagsmuna- og félagasamtaka tók á móti styrkjum frá velferðarráði föstudaginn 21. mars. Róbert Reynisson
Stór hópur af fólki í Tjarnarsal Reykjavíkur, í hópnum eru allir sem fengu styrk velferðarráðs 2025.

Það var margt um manninn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á föstudaginn, þegar forsvarsfólk 23 hagsmuna- og félagasamtaka tók á móti styrkjum frá velferðarráði Reykjavíkurborgar. Ráðið veitir árlega styrki úr borgarsjóði, til verkefna á sviði velferðarmála. 

Hlutverkasetur hlaut hæsta styrkinn

Hæsta styrkinn í ár hlaut Hlutverkasetur, eða 12 milljónir króna á ári í þrjú ár. Hlutverkasetur er virknimiðstöð sem er öllum opin en meirihluti þeirra sem þangað leita er fólk með geð-, fíkni- og hegðunarvanda. Markmiðið með starfinu í Hlutverkasetri er að auka lífsgæði, rjúfa einangrun og veita ýmiss konar aðstoð, til dæmis við að komast út á almennan vinnumarkað, hefja eða ljúka námi, finna vettvang í hlutverkum sem hafa þýðingu og gildi eða stunda sjálfboðaliðavinnu. Er leitast við að efla trú einstaklinga á eigin áhrifamátt og getu. 

Mikill fjöldi umsókna og 23 félög fengu styrk

Alls bárust 62 umsóknir um styrki í ár og hlutu 23 félög styrk. Ellefu fengu almennan styrk, níu fengu þjónustusamning til eins árs og þrjú fengu þjónustusamning til þriggja ára. 

Í styrkjanefnd í ár voru þær Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, Sandra Hlíf Ocares borgarfulltrúi og Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs. Styrkjanefndin mat umsóknirnar út frá sjö þáttum og gaf umsóknunum stig í samræmi við það. Heildarupphæð styrkja nam 47 milljónum króna. 

Listi yfir öll félögin sem fengu styrk í ár:

Almennir samningar:

  • Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn – 200.000 krónur.
  • Farsæl öldrun – 200.000 krónur.
  • Einhverfusamtökin – stuðningshópar – 800.000 krónur.
  • Foreldraþorpið – stuðningur við velferð og öryggi ungmenna – 300.000 kr.
  • Karlar í skúrum, Breiðholti – 300.000 kr.
  • Korpúlfarnir – gróðurkassar við Borgir – 500.000 kr.
  • Kórstarf félagsstarfs aldraðra í Reykjavík – Söngfuglar – 180.000 kr. 
  • ME félag Íslands – fræðsla og kynningarefni – 250.000 kr.
  • Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu – vinaverkefni – 500.000 kr.
  • Samvera og súpa – samvera og súpa – 350.000 kr.
  • Vinaskákfélagið – skák í anda fólks með geðraskanir – 300.000 krónur.

Þjónustusamningar til eins árs 2025:

  • Átak, félag fólks með þroskahömlun – fagfólk í fötlun – 2.000.000 kr.
  • Bjarkarhlíð – aukin þjónustugeta Bjarkarhlíðar til að mæta vaxandi aðsókn og þörf – 6.000.000 kr.
  • Gigtarfélag Íslands – jafningjastuðningur og félagsstarf fyrir fólk með gigt – 1.000.000 kr.
  • Íþróttafélagið Ösp – umframkostnaður við íþróttaiðkendur með miklar sérþarfir – 4.000.000 kr.
  • Landssamtökin Þroskahjálp – upplýsingar fyrir öll – 3.000.000 kr. 
  • Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur – aðstoð við bágstadda – 1.000.000 kr.
  • Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu – félagsstarf, ráðgjöf og stuðningur – 1.000.000 kr.
  • Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð – ráðgjöf og stuðningur til foreldra langveikra og fatlaðra barna  – 2.500.000 kr.
  • Þorpið tengslasetur ehf. – Pabbanetið – 1.000.000 kr.

Þjónustusamningur til þriggja ára, 2025–2027:

  • AE starfsendurhæfing – Hlutverkasetur – 12.000.000 kr. á ári í þrjú ár.
  • Afstaða til ábyrgðar – þjónustusamningur við Afstöðu – 6.000.000 kr. á ári í þrjú ár.
  • Styrktarfélag klúbbsins Geysis – Virkniverkefni fyrir einstaklinga með geðrænar áskoranir sem búa í búsetukjörnum og búsetuendurhæfingarheimilum í Reykjavík – 4.000.000 kr. á ári í þrjú ár.