Hlutu viðurkenningu fyrir eftirtektarverðan árangur í starfi
Í lok Velferðardagsins sem haldinn var í síðustu viku voru hvatningarverðlaun velferðarráðs veitt. Verðlaunin, sem hafa verið veitt árlega frá árinu 2011, koma í hlut starfsfólks velferðarsviðs sem þykir hafa sýnt eftirtektaverða alúð, þróun eða nýbreytni varðandi hvaðeina sem við kemur velferðarmálum.
Markmiðið með veitingu hvatningarverðlauna er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarmálum Reykjavíkurborgar, auk þess að stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi.
Tvenn verðlaun tengd Droplaugarstöðum
Í flokki einstaklinga hlaut Mahmoud F. M. Abusaada viðurkenninguna en hann er hjúkrunarfræðingur og starfar sem hjúkrunardeildarstjóri á MND-deild hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða. Mahmoud er frá Palestínu og kom hingað til lands árið 2020. Hann hóf störf á Droplaugarstöðum sem aðstoðarmaður sjúkraþjálfa í byrjun árs 2022. Þegar réttindi hans höfðu verið tekin gild fór hann að vinna sem hjúkrunarfræðingur á Droplaugarstöðum og nú, rúmum tveimur árum seinna, stýrir hann deildinni. Mahmoud þykir jákvæður, duglegur og metnaðarfullur maður sem leggur áherslu á góð samskipti og samvinnu.
Þetta voru ekki einu verðlaunin sem tengdust Droplaugarstöðum því hjúkrunarheimilið hlaut einnig viðurkenninguna í flokki starfsstaða. Í rökstuðningi dómnefndar segir að starfsfólk Droplaugarstaða sé jákvætt og tilbúið að tileinka sér nýjungar, fræðast, breyta til hins betra og gera góðan vinnustað sífellt betri. Á Droplaugarstöðum hefur að undanförnu verið unnið að ýmsum breytingum og umbótum. Þar var árið 2020 tekið upp gæðakerfi auk alþjóðlegrar ISO 9001 vottunar. Árið 2022 hófst svo ferli við innleiðingu Eden Alternative-stefnunnar sem allt starfsfólk tók þátt í. Heimilið hlaut í kjölfar þess alþjóðlega viðurkenningu sem Eden heimili fyrir árin 2024–2027.
Hafa unnið mikilvægt starf við að innleiða farsældarlögin í Reykjavík
Innleiðing farsældarlaganna í Reykjavík hefur verið í fullum gangi undanfarin tvö ár, í gegnum Betri borg fyrir börn. Sú innleiðing hlaut hvatningarverðlaunin í flokki verkefna. Innleiðingunni stýra þau Hákon Sigursteinsson og Hulda Finnsdóttir. Með þeim starfar fjöldi fólks á ólíkum starfsstöðum borgarinnar sem sér til þess að innleiðingin nái örugglega til þjónustunnar. Í hópnum eru meðal annars framkvæmdastjórar, teymisstjórar og deildarstjórar á á miðstöðvum borgarinnar, deildarstjórar Barnaverndar Reykjavíkur og sérfræðingar á skrifstofu velferðarsviðs.
Öðru fólki innblástur með störfum sínum
Síðast en ekki síst hlaut Edda Ólafsdóttir félagsráðgjafi viðurkenningu fyrir farsælt starf í þágu velferðarmála. Framlag hennar til þróunar þjónustu velferðarsviðs þykir ómetanlegt. Hún hefur sýnt einstakan metnað og frumkvæði í því að afla sér sérhæfðrar fagþekkingar á málefnum fólks af erlendum uppruna og miðla þeirri þekkingu áfram til samstarfsfólks á velferðarsviði og víðar. Þá hefur Edda vakið athygli á „bakhliðum borgarinnar“ eins og hún kallar þær sjálf, svo sem ofbeldi, vændi og brotastarfsemi. Hún hefur verið frumkvöðull í umræðu og fræðslu, sýnt hugrekki og ábyrgð í að takast á við viðkvæm málefni og þykir í senn fagleg og mannúðleg í allri nálgun sinni. Edda vinnur af einlægni, nær að virkja fólk og skapa jákvæða og skapandi stemningu í kringum þau málefni sem hún ber fyrir brjósti og skapar þannig innblástur fyrir aðra.
Í heild bárstu 49 tilnefningar
Öllu starfsfólki velferðarsviðs gafst kostur á að tilnefna einstakling, starfsstað, hóp og / eða verkefni. Fjölmargar athyglisverðar tilnefningar bárust valnefndinni og valdi nefndin úr þeim tilnefningum sem bárust. Í heildina voru 49 einstaklingar, hópar eða verkefni tilnefnd, þar af voru 22 tilnefndir í flokknum einstaklingar, 13 tilnefndir í flokknum hópar/starfsstaðir og 14 tilnefndir í flokknum verkefni.