Hluti Virknimiðstöðvar flutt í stærra og hentugra húsnæði í Skeifunni

Smiðjan, sem heyrir undir Virknimiðstöðina og er virkniúrræði fyrir fatlað fólk á vegum velferðarsviðs, hefur verið flutt í Skeifuna 8.
Mynd af húsnæði Virknimiðstöðvar í Skeifunni 8.

Smiðjan, sem heyrir undir Virknimiðstöðina og er virkniúrræði fyrir fatlað fólk á vegum velferðarsviðs, hefur verið flutt í Skeifuna 8. Smiðjuna nýta um 30 einstaklingar sem fá einstaklingsbundinn stuðning, út frá getu og vilja hvers og eins. Húsnæðið í Skeifunni er bæði rúmgott og bjart og býður upp á mikla möguleika. 

Smiðjan var um árabil staðsett að Bæjarflöt. Síðastliðið vor varð ljóst að ekki næðist viðunandi niðurstaða í viðræður um áframhaldandi leigu þar. Því hófst leit að nýju húsnæði sem gæti boðið uppá tækifæri til aukinnar hagræðingar og vöxt fyrir starfsemina. Ekki var hlaupið að því að finna hentugt húsnæði í Reykjavík og því var ánægjulegt þegar húsnæðið í Skeifunni bauðst til leigu. 

Kona situr við borð fyrir framan skilrúm með myndum á.
Húsnæðið í Skeifunni er bæði rúmgott og bjart og býður upp á mikla möguleika. 

Nauðsynlegar breytingar til að aðlaga húsnæðið vinnu og virkni

Áður en tekin var ákvörðun um flutningana var húsnæðið skoðað gaumgæfilega af sérfræðingum í málaflokki fatlaðs fólks. Var það samróma niðurstaða þeirra að með ákveðnum breytingum hentaði húsnæðið starfseminni vel. Meðal annars þurfti að gera breytingar á salernum, eldhúsi, matsal, lyftu, rampi og vegna brunavarna. 

Jafnframt var það mat sérfræðinga velferðarsviðs að önnur úrræði Virknimiðstöðvarinnar gætu einnig rúmast vel í Skeifunni. Undir Virknimiðstöðina falla, auk Smiðjunnar, Opus, SmíRey og Iðjuberg. Ráðgert er að Opus, sem 15 einstaklingar nýta, flytji í Skeifuna 8 þegar nauðsynlegum endurbótum verður lokið. Opus er sem stendur í húsnæði í Breiðholti sem til stendur að rífa og því var ljóst að finna þyrfti starfseminni nýjan stað. Því var ánægjulegt að húsnæðið í Skeifunni 8 rúmaði einnig þá starfsemi. 

Mikil áhersla lögð á að tryggja sem besta aðlögun

Mörg þeirra sem nýta virkniúrræði velferðarsviðs eru viðkvæm fyrir breytingum og þurfa langan aðlögunartíma þegar umhverfi og aðstæður breytast. Stjórnendur og starfsfólk í málaflokki fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg eru meðvitaðir um það. Því hefur verið lögð áhersla á að vinna breytingarnar vel og kynna þær notendum þjónustunnar og aðstandendum þeirra, starfsfólki, hagsmunaaðilum og öðrum hlutaðeigandi, til að tryggja sem besta aðlögun að nýjum aðstæðum. 

„Nýja húsnæðið gefur okkur möguleika til vaxtar, nýsköpunar og þróunar á mikilvægri þjónustu fyrir fatlað fólk.“

Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, segir sýnileika fatlaðs fólks í samfélaginu verða meiri með flutningi starfseminnar í Skeifuna. „Skeifan er jú í hjarta borgarinnar. Flutningurinn fellur því vel að landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks en þar er áhersla á aukinn sýnileika fatlaðs fólks. Þá er dásamlegt að fötluðu fólki sem nýtir þjónustu virkniúrræða velferðarsviðs hefur verið sérlega vel tekið af næsta umhverfi í Skeifunni. Velferðarsvið hefði aldrei farið í þessar breytingar nema með hagsmuni notendahópsins að leiðarljósi auk þess sem nýja húsnæðið gefur okkur möguleika til vaxtar, nýsköpunar og þróunar á mikilvægri þjónustu fyrir fatlað fólk,“ segir hún.