Hjólreiðafólki fjölgar í borginni
Nýjustu sniðtalningar umferðarmynsturs í Reykjavík sýna skýra þróun í átt að auknum virkum ferðamátum.
Samkvæmt niðurstöðum hefur bílaumferð dregist saman um tæp 2% frá fyrra ári á meðan hjólreiðum hefur fjölgað um allt að 30%. Fjöldi gangandi vegfarenda hefur aukist stöðugt síðastliðin tíu ár.
Sniðtalningar eru framkvæmdar árlega og veita mikilvæga innsýn í hvernig íbúar ferðast um borgina, hvort sem er gangandi, hjólandi eða á bíl. Gögnin eru einnig birt opinberlega í Borgarvefsjá.
Aukning í virkum ferðamáta
Niðurstöður sýna að hjólreiðar hafa aukist verulega milli ára, sem styður við markmið borgarinnar um aukna sjálfbærni í samgöngum. Um leið hefur þróunin verið í átt að minni notkun einkabíls, sem samræmist einnig gögnum frá Vegagerðinni þar sem fram kemur að umferð á hringveginum dróst saman í október síðastliðnum.
Á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, þar sem bornar voru saman talningar frá 2022 og 2025, hefur orðið lítillega fækkun gangandi vegfarenda (-3%) og bílaumferðar (-1%), en á sama tíma fjölgaði hjólandi um 27%. Á Lækjargötu og Vonarstræti hefur gangandi vegfarendum fjölgað um 68% og hjólandi um heil 195% á sama tímabili, á meðan bílaumferð jókst um 56%.