Hitt húsið, Leikskólinn Lyngheimar og Félagsmiðstöðin Sigyn eru til fyrirmyndar
Leikskólinn Lyngheimar, Félagsmiðstöðin Sigyn og Hitt húsið eru fyrirmyndarvinnustaðir Reykjavíkurborgar 2024 og voru verðlaun veitt við hátíðlega athöfn í gær. Titilinn hljóta þeir vinnustaðir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem hún náði yfir að mati starfsfólks þeirra.
Hafa náð framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs
Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og veita þeim vinnustöðum viðurkenningar sem náð hafa framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Könnunin gefur stjórnendum möguleika á að sjá hvar þeirra vinnustaður stendur varðandi þætti eins og stjórnun, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt, og jafnrétti. Þannig veitir könnunin ákveðið aðhald og getur nýst til umbóta.
Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana og vinnustaða, en hún nær til um 35.000 manns sem starfa á opinberum vinnumarkaði.
Sigyn sigurvegari annað árið í röð
Í hópi minnstu starfsstaða eru einnig fimm fyrirmyndarvinnustaðir valdir. Sigurvegari flokksins er Félagsmiðstöðin Sigyn sem var einnig sigurvegari flokksins árið 2023. Frístundaheimilið Frostheimar er í öðru sæti, Félagsmiðstöðin Fjörgyn í þriðja sæti, Frístundaheimilið Selið í fjórða sæti sem vermdi annað sætið í fyrra og Félagsmiðstöðin 105 í fimmta sæti.
Leikskólinn Lyngheimar framúrskarandi í flokki millistórra starfsstaða
Í hópi starfsstaða í millistærð er sigurvegari flokksins Leikskólinn Lyngheimar. Leikskólinn Gullborg er í öðru sæti sem var í fimmta sæti í fyrra. Rafræn miðstöð er í þriðja sæti í ár og var einnig í þriðja sæti í fyrra. Leikskólinn Álftaborg er í fjórða sæti en skólinn var í öðru sæti í fyrra. Íbúðakjarninn í Stjörnugróf er í fimmta sæti en var í níunda sæti í fyrra.
Hitt húsið er aftur framúrskarandi
Í hópi stærstu starfsstaða er sigurvegari flokksins, Hitt húsið, sem var í fyrsta sæti í flokki meðalstórra starfsstaða í fyrra. Til viðbótar eru valdir fjórir fyrirmyndarvinnustaðir: Leikskólinn Rauðhóll sem var í 12. sæti í fyrra, Háteigsskóli sem var í fimmta sæti í fyrra, Álftamýrarskóli sem var í öðru sæti í fyrra og að síðustu Sæmundarskóli sem var í sjötta sæti í fyrra.
Hægt er að nálgast allar upplýsingar um könnunina og verðlaunahafa á vef Sameykis.