Hitt húsið, Leikskólinn Lyngheimar og Félagsmiðstöðin Sigyn eru til fyrirmyndar

Allir verðlaunahafa Reykjavíkur.

Leikskólinn Lyngheimar, Félagsmiðstöðin Sigyn og Hitt húsið eru fyrirmyndarvinnustaðir Reykjavíkurborgar 2024 og voru verðlaun veitt við hátíðlega athöfn í gær. Titilinn hljóta þeir vinnustaðir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem hún náði yfir að mati starfsfólks þeirra.

Hafa náð framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs

Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og veita þeim vinnustöðum viðurkenningar sem náð hafa framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Könnunin gefur stjórnendum möguleika á að sjá hvar þeirra vinnustaður stendur varðandi þætti eins og stjórnun, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt, og jafnrétti. Þannig veitir könnunin ákveðið aðhald og getur nýst til umbóta.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana og vinnustaða, en hún nær til um 35.000 manns sem starfa á opinberum vinnumarkaði.

Sigyn sigurvegari annað árið í röð

Í hópi minnstu starfsstaða eru einnig fimm fyrirmyndarvinnustaðir valdir. Sigurvegari flokksins er Félagsmiðstöðin Sigyn sem var einnig sigurvegari flokksins árið 2023. Frístundaheimilið Frostheimar er í öðru sæti, Félagsmiðstöðin Fjörgyn í þriðja sæti, Frístundaheimilið Selið í fjórða sæti sem vermdi annað sætið í fyrra og Félagsmiðstöðin 105 í fimmta sæti.

Félagsmiðstöðin Sigyn tekur við sínum verðlaunum.

Leikskólinn Lyngheimar framúrskarandi í flokki millistórra starfsstaða

Í hópi starfsstaða í millistærð er sigurvegari flokksins Leikskólinn Lyngheimar. Leikskólinn Gullborg er í öðru sæti sem var í fimmta sæti í fyrra. Rafræn miðstöð er í þriðja sæti í ár og var einnig í þriðja sæti í fyrra. Leikskólinn Álftaborg er í fjórða sæti en skólinn var í öðru sæti í fyrra. Íbúðakjarninn í Stjörnugróf er í fimmta sæti en var í níunda sæti í fyrra.

Leikskólinn Lyngheimar tekur við sínum verðlaunum.

Hitt húsið er aftur framúrskarandi

Í hópi stærstu starfsstaða er sigurvegari flokksins, Hitt húsið, sem var í fyrsta sæti í flokki meðalstórra starfsstaða í fyrra. Til viðbótar eru valdir fjórir fyrirmyndarvinnustaðir: Leikskólinn Rauðhóll sem var í 12. sæti í fyrra, Háteigsskóli sem var í fimmta sæti í fyrra, Álftamýrarskóli sem var í öðru sæti í fyrra og að síðustu Sæmundarskóli sem var í sjötta sæti í fyrra.

Hitt húsið tekur við sínum verðlaunum.

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um könnunina og verðlaunahafa á vef Sameykis.