Heildarúttekt á framkvæmdum við Brákarborg kynnt

Borgarráð hefur samþykkt að skipa starfshóp til að vinna að umbótum er varða eftirfylgni á hönnun, framkvæmdum og eftirliti með framkvæmdum á vegum borgarinnar. Starfshópnum er ætlað að vinna með ábendingar Innri endurskoðunar og ráðgjafar (IER) borgarinnar í kjölfar heildarúttektar á leikskólanum Brákarborg. Skýrslan var kynnt í borgarráði í dag.
Leikskólinn tók til starfa síðsumars 2022 en farið var í ítarlega skoðun á hárfínum sprungum í veggjum og ójöfnu gólfi sumarið 2024. Verkfræðistofurnar Verkís og VSÓ tóku í framhaldi út burðarvirki leikskólans að beiðni Reykjavíkurborgar. Niðurstaða þeirra var að þakið og þar með byggingin stæðist ekki núgildandi staðla varðandi burðarþol. Úttektirnar voru gerðar í sumarlokun skólans og leikskólastarfið var flutt í annað húsnæði að sumarleyfi loknu. Eftir miklar endurbætur flytur starfsemin aftur í Brákarborg í haust.
Ítarleg skoðun á öllum þáttum
Borgarráð fól IER að ráðast í sjálfstæða úttekt á allri framkvæmd verksins í ágúst 2024. Í úttektinni sem nú er kynnt var gerð ítarleg skoðun á öllum þáttum verkefnisins, frá kaupum á fasteigninni við Kleppsveg 150–152 árið 2020, til afhendingar húsnæðisins sem leikskóla árið 2022. Viðtöl voru tekin við starfsfólk Reykjavíkurborgar, hönnuði, verktaka og eftirlitsaðila, auk þess sem öll helstu gögn tengd ástandsskoðun, hönnun, kostnaðaráætlunum, útboðum og framkvæmdum voru yfirfarin.
14 tillögur að umbótum
Í skýrslunni eru settar fram 14 tillögur að umbótum. Meðal annars er lagt til að heildarkostnaður vegna tjónsins verði metinn þegar framkvæmdum lýkur og metið verði hvort það eigi að sækja skaðabætur til verktaka og/eða ráðgjafa.
Þrjár tillögur varða burðarvirkishönnun og burðarvirki, meðal annars að það þurfi að gera ítarlega skoðun á burðarvirki við kaup á eldra húsnæði, sérstaklega þegar fyrirhugað er að breyta notkun þess. Aðrar tillögur varða eftirlit með mannvirkjagerð, verklag, stjórnskipulag, gæðakerfi og mönnun.
Mikilvægt að halda vel utan um umfangsmikil verkefni
Skrifstofa framkvæmda og viðhalds á umhverfis- og skipulagssviði hélt utan um hönnun og framkvæmdir Brákarborgar á árunum 2021-2022. Á sama tíma gerðu fjárfestingaráætlanir borgarinnar ráð fyrir mikilli fjölgun viðhaldsverkefna og nýbygginga. Áætlanir gerðu hins vegar ekki ráð fyrir fjölgun starfsfólks á skrifstofunni heldur var lögð áhersla á að auka aðkeypta sérfræðiþjónustu. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að í svona umfangsmiklu átaki er mikilvægt að passa að það sé nægur mannafli til að fylgja eftir og halda utan um verkefni og aðkeypta þjónustu.
Eftirfylgni á hönnun, framkvæmdum og eftirliti
Starfshópurinn sem nú verður skipaður á að skila tímasettri áætlun, áfangamati og tillögum um hvernig eftirfylgni á hönnun, framkvæmdum og eftirliti með framkvæmdum á vegum borgarinnar skuli vera háttað. Starfshópurinn verður skipaður starfsfólki Reykjavíkurborgar og skal sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs skipa tvo fulltrúa (þar af einn frá eignaskrifstofu) og sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs skipar einn fulltrúa.
Markmið með vinnu starfshópsins verður að tryggja umbætur, aukna fagmennsku, öryggi og ábyrgð í framkvæmdum, draga úr kostnaðaráhættu, tryggja rekjanleika og bæta eftirlit og áhættumat með skilvirkara stjórnskipulagi.