Hátíðardagskrá á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn með breyttu sniði

Ebba Katrín Finnsdóttir var fjallkonan árið 2024.
Ebba Katrín Finnsdóttir var fjallkonan árið 2024.

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní fer fram hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni í Reykjavík og að henni lokinni hefst hátíðardagskrá á Austurvelli.

Athöfnin verður með breyttu sniði í ár þar sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur boðið Höllu Tómasdóttur forseta Íslands að flytja hátíðarávarpið sem allt fram til þessa hefur verið í höndum forsætisráðherra. Að auki verður tilhögun nú með þeim hætti að athöfnin verður sýnilegri almenningi en áður. 

Hátíðarathöfnin á Austurvelli verður í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV og bein útvarpsútsending verður frá hátíðarguðsþjónustunni kl. 10.15.

Forsætisráðherra leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar og fjallkonan flytur ávarp en venju samkvæmt hvílir leynd yfir því hver hún er þar til hún gengur út á völlinn. Að lokinni athöfn fer skrúðganga frá Austurvelli í Hólavallakirkjugarð þar sem lagður verður blómsveigur frá Reykvíkingum að leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans. Frekari upplýsingar um hátíðarhöld og götulokanir í borginni má nálgast á vefnum www.17juni.is

Skrúðganga frá Austurvelli að Hólavallakirkjugarði.
Skrúðganga frá Austurvelli að Hólavallakirkjugarði.

Dagskrá á Austurvelli hefst kl. 11.10:

Kórinn Graduale Nobili syngur Yfir voru ættarlandi

Forsætisráðherra leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar

Kór syngur þjóðsönginn 

Hátíðarræða forseta Íslands

Kór syngur Hver á sér fegra föðurland

Fjallkonan flytur ávarp

Hornleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leika Ég vil elska mitt land

Skrúðganga frá Austurvelli í Hólavallakirkjugarð við Suðurgötu kl. 11.50.