Göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut formlega tekin í notkun

Göngubrú yfir Sæbraut var opnuð formlega

Ný göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut var formlega tekin í notkun í dag. Brúin hefur verið í notkun undanfarnar vikur en var formlega tekin í gagnið nú í Samgönguviku. Fimmtíu börn í 4.bekk í Vogaskóla tóku þátt í opnuninni og Sirkus Íslands mætti á svæðið með skemmtiatriði. 

Brúin er mikilvæg tenging milli nýrrar Vogabyggðar og Vogahverfis og bætir umferðaröryggi vegfarenda verulega, ekki síst fyrir skólabörn sem sækja Vogaskóla. Með tilkomu brúarinnar opnast jafnframt ný og örugg göngu- og hjólaleið milli Tranavogs og Snekkjuvogs. 

Tryggir umferðaröryggi

Brúin er tímabundin lausn til að tryggja umferðaröryggi yfir Sæbraut. Hún er sett saman úr einingum sem hægt verður að endurnýta og setja upp annars staðar síðar meir. Brúin er yfirbyggð og veitir þannig skjól fyrir veðri og vindum. Stigahús og lyftur eru við báða enda brúarinnar til að tryggja öllum aðgengi.  

Gert er ráð fyrir að brúin verði notuð þar til framkvæmdir við Sæbrautarstokk hefjast. 

Verkís hannaði mannvirkið og Ístak sá um framkvæmdir. VBV verkfræðistofa hafði eftirlit og umsjón á sinni könnu. Vegagerðin hafði yfirumsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.

Framkvæmdin er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna og heyrir undir Samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu.